Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 14:58:58 (4711)

2001-02-15 14:58:58# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þessar tölur er búið að lesa yfir okkur áður en við erum líka búin að fá tölur sem segja okkur aðra hluti og enn kemur hv. flm. ekki með fjölda iðkenda á bak við þær tölur sem hann er með. Ég ætla að fá að vitna, herra forseti, til orða hæstv. menntmrh. sem sagði í ræðu á 122. löggjafarþingi þegar þetta mál var til umfjöllunar. Hæstv. menntmrh. sagði, með leyfi forseta:

,,Erfitt hefur reynst að afla nákvæmra upplýsinga um slysatíðni í ólympískum hnefaleikum en þess er að vænta, m.a. með aðstoð Læknafélags Íslands, að á næstunni hafi menn aflað sér þeirra upplýsinga um þau mál sem gefa a.m.k. vísbendingu. En að fá þetta þannig að algilt sé og fullnægjandi miðað við að allar upplýsingar liggi fyrir kann að reynast mjög erfitt.``

Ég fullyrði, herra forseti, að það er enn mjög erfitt að fá fullnægjandi upplýsingar, fullnægjandi tölur og samanburðarhæfar.