Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 15:42:49 (4725)

2001-02-15 15:42:49# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[15:42]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta virðist sama tuggan hjá þeim sem eru á móti málinu, þ.e. læknisfræðileg rök, þó að þeir sem eru fylgjandi því hafi sýnt fram á að það sé öfugt.

Ég ætla að spyrja hv. þm. Drífu Sigfúsdóttur hvort hún ætli að banna það að börnin hennar stundi karate eða tae kwon do eða eitthvað slíkt. Þetta er ekkert spurning um að lemja andstæðinginn, þetta er ekki spurning um að lemja, að berja eða kýla hann.

Af því að hér hefur m.a. verið talað um börn þá fer fram á hverju ári mót í Bandaríkjunum í ólympískum hnefaleikum sem nefnast Silver Gloves og Golden Gloves. Silver Gloves er ætlað krökkum og unglingum á aldrinum 8--15 ára. Þátttakendur eru um 2.700 og fjöldi bardaga er yfir 2.000, sem eru 5.000--6.000 lotur á ári. Það hefur ekki komið upp eitt einasta tilfelli síðustu átta ár þar sem læknishjálpar hefur verið þörf í kringum þessa keppni. Ég spyr: Er þetta hættuleg íþróttagrein?

Árin 1997 og 1998 --- fyrst menn draga í efa þessar tölfræðiupplýsingar --- voru bardagar í ólympískum hnefaleikum yfir 23.000 og þátttakendur nálægt því sama, um 23.000. Skráð meiðsl á þessum mótum árið 1998 voru einungis 98. Þetta eru líka sýningar og annað, t.d. silfur- og gullhanskamótin í Bandaríkjunum. Athugið að enginn hefur slasast á silfurhanskamóti. Þegar fólk segir hér, ágætir þingmenn sem eru á móti þessu, að íþróttin sé svo hættuleg og siðferðilega ómögulegt þá vísa ég því alfarið á bug.