Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 16:14:28 (4736)

2001-02-15 16:14:28# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[16:14]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Bann við hnefaleikum, atvinnumannahnefaleikum. Ég tel og það er persónuleg skoðun mín og ég veit að margir styðja hana, að ef við mundum leyfa hér ólympíska hnefaleika þá mundum við fá yfir okkur keppni og við mundum fá yfir okkur kröfur um að leyfðir væru atvinnumannahnefaleikar. Ég veit það af ýmsum skeytum sem ég fékk á tölvu í fyrravor meðan þessi mál voru til afgreiðslu, og það barst nú út að ég væri andstæðingur þessa máls, þá fékk ég skeyti frá ýmsum ungum mönnum sem voru að stunda þessa íþrótt. Ég verð að segja að af innihaldi þeirra skeyta varð ekki ráðið að þessi iðkun hefði haft mjög göfug áhrif á þann hóp, því miður.

Ég er einn af forsjárhyggjumönnunum í þessu máli. Það er rétt og ég er stolt af því. Ég veit að margir hafa öfundað okkur Íslendinga gegnum tíðina sem ég hef átt samstarf við á erlendri grund um að hér séu bannaðir hnefaleikar. Unnið er að því að svo verði gert t.d. í Noregi og það er mjög einarðlega unnið að því í Bretlandi líka.