Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 16:17:30 (4738)

2001-02-15 16:17:30# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[16:17]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir að hér hafi verið í gildi bann þá mun það vera svo að hér sé nokkuð stundað box. Hópur þekktra Íslendinga kom hingað í þinghúsið í fyrra og hafði viðdvöl í þinghúsinu eða á göngum í þinginu þegar þessi mál voru til umræðu. Þetta var hópur mikilla áhugamanna um að box væri stundað á Íslandi og þá ekki bara áhugamannahnefaleikar. Fyrr á fundinum var lesið upp úr viðtölum við unga menntaskólanema sem voru að stunda keppni í boxi og fóru ekki eftir neinum reglum og var það ekkert sérstaklega fögur lýsing.

Hv. þm. Gunnar Birgisson talar um draugagang, að þetta hnefaleikabann sé einhver draugur sem þurfi að kveða niður. Mér finnst þessi síendurtekni flutningur frv. sem búið er að fella, sem búið er að knésetja, sem búið er að slá út, hæstv. forseti, miklu alvarlegri draugagangur en annar sá draugagangur sem hefur verið til umræðu í dag.