Óhefðbundnar lækningar

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 16:53:12 (4743)

2001-02-15 16:53:12# 126. lþ. 71.7 fundur 173. mál: #A óhefðbundnar lækningar# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[16:53]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. flm. þessarar þáltill., Láru Margréti Ragnarsdóttur, fyrir það frumkvæði sem hún hefur sýnt í þessum málum, ekki einungis á hinu háa Alþingi heldur líka í störfum sínum fyrir Íslendinga á erlendri grund. Eins og fram kemur í grg. með tillögunni hefur hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir átt þátt í því að leggja fram skýrslu um óhefðbundnar lækningaaðferðir á vettvangi Evrópuráðsins. Svo hefur hv. þm. verið dugleg við að fræða okkur hin, meðflutningsmenn sína, að þessari þáltill. því að við höfum fengið í hendur mikla skýrslu frá Noregi sem er nýunnin og er sannarlega til fyrirmyndar. Í þeirri skýrslu sjáum við hvílíkur fjársjóður það væri fyrir okkur að eiga skýrslu af sama tagi, sem er einmitt hugmyndin á bak við þessa þáltill., að þetta landslag okkar verði kortlagt, að við fáum að vita hvers konar óhefðbundnar lækningar eru stundaðar á Íslandi, hve mikið þær eru stundaðar, hve mörg félög standa að þeim sem stunda lækningarnar, hvort boðið er upp á einhverja skólun og hvers konar skólun og allt þar fram eftir götunum. Allt er þetta enn ókortlagt en sannarlega tímabært og mikils virði að fá þetta allt saman sett niður á pappír.

Þegar fjallað er um óhefðbundnar lækningar kemur auðvitað upp í hugann eða maður veltir ósjálfrátt vöngum yfir því hvað hér sé um að ræða. Það er dálítið gaman að skoða það að hinar vestrænu lækningar sem við þekkjum best í dag og þau vísindi sem stunduð eru undir þeirri yfirskrift, vestræn læknavísindi, byggja auðvitað allt sitt á hinum óhefðbundnu læknavísindum sem eru kannski aldagamlar hefðir. Má í því sambandi nefna nálastungurnar, alls kyns nudd, jurtalækningar o.fl. sem er af þessum meiði þannig að það er jafnvel spurning í þessu tilfelli hvað er hefðbundið og hvað er ekki hefðbundið.

Það er líka gaman að skoða hvaða nöfn þessar óhefðbundnu lækningaaðferðir hafa fengið á erlendum málum og hv. þm. sem talað hafa á undan mér hafa farið aðeins yfir sviðið í þeim efnum. Ég tíndi út úr þessari norsku skýrslu sem ég nefndi nokkur heiti yfir þessar óhefðbundnu lækningar. Þar kalla menn þetta ýmist alternativ medisin, komplementær medisin, naturmedisin, helhetsmedisin, naturlig medisin, tradisjonell medisin eða den andre medisin. Bara það að fara yfir slíkan lista sýnir okkur hve þetta er í raun og veru skapandi verkefni fyrir þessa nefnd og fyrir hv. alþm. sem koma til með að fá að fjalla um þetta mál áfram að takast á við að greina þetta fyrirbæri sem er svo huglægt enn í dag fyrir okkur því að við höfum sannarlega öll tekið einhverja afstöðu eða jafnvel haft einhverja reynslu af óhefðbundnum lækningaaðferðum en erum örugglega hvert og eitt með persónulegan skilning og persónulega afstöðu í þessum málum.

Í grunninn byggja þessar aðferðir samt sem áður allar á því meira eða minna að aðstoða fólk við að taka í auknum mæli ábyrgð á eigin heilsu. Að því leyti til standa þær mjög nálægt manneskjunni, þær eru hluti af okkar eigin daglega umhverfi og það að auka ábyrgð einstaklinganna á eigin heilsufari er að sjálfsögðu mjög sterk forvörn.

Ástandið í öðrum löndum er mjög misjafnt. Við þekkjum það t.d. frá Bretlandi að þar eru þessar óhefðbundnu lækningaaðferðir jafnvel viðurkenndar og settar inn í sjúkrasamlag. Má þar nefna osteopatíu og hómópatíu og nálarstungurnar og höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun mun vera að sækja núna um löggildingu í Bretlandi. Þar eru komnir öflugir skólar í öllum þeim greinum sem ég hef nefnt hér og viðurkennt nám sem er opinberlega viðurkennt og grandskoðað þannig að hér er um mjög öfluga starfsemi að ræða, bæði í menntunarlegu tilliti og eins meðal heilbrigðisstétta. Eins og komið hefur fram í máli þeirra þingmanna sem hafa talað á undan mér eru þetta oft aðferðir sem fara vel saman með þeim hefðbundnu aðferðum sem við þekkjum. Við þekkjum það reyndar bara hér í okkar litla landi að fólkið í heilbrigðisstéttunum er í auknum mæli farið að afla sér þekkingar á þessum sviðum, í nuddi, nálastungum, höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og nýta með hefðbundnu námi sínu og sínum hefðbundnu störfum.

Það er alveg greinilegt að á Íslandi eiga óhefðbundnar lækningar sér rætur. Eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir fór hér yfir eru grasalækningar hefðbundin grein á Íslandi. Íslenskar ljósmæður hafa notað grös í gegnum aldirnar við störf sín. Vallhumallinn, elftingin, blóðbergið og bláberjalyngið, allt hefur þetta verið notað svo ekki sé talað um fjallagrösin sem hefur nú verið sannað að hafi í sér efni sem virðist vera virkt eða sýnir virkni gegn HIV-veirunni. Það er alveg ljóst að í landi okkar eigum við auð, náttúrulegan auð, í þessum grösum sem hafa lækningamátt og grasalækningar af þessu tagi eiga sér hér langa sögu. Það virðist vera ljóst að breytingar séu nú í vændum. Fólk er farið að nota jurtirnar í dag í auknum mæli, innlendar sem erlendar. Maður sér núna nýverið í verslunum að farið er að selja það sem menn kalla Bach-dropa sem eru jurtadropar sem eiga að hjálpa fólki við að ná sálarlegu eða andlegu eða tilfinningalegu jafnvægi. Það eru því vísbendingar um að við séum að sigla inn í nýja tíma og af því að hv. þm. Ásta Möller notaði orðið umburðarlyndi þá held ég að umburðarlyndi almennings gagnvart því sé líka að vaxa að það séu til aðferðir sem virka og eru kannski ekki endilega kenndar í háskólanum.

[17:00]

En af því að hér hefur verið talað um heilbrigðisáætlun til ársins 2010, við höfum fengið fínt plagg frá hæstv. heilbrrh. um heilbrigðisáætlun til ársins 2010, þá hljóp ég að gamni mínu í gegnum hana til að athuga hvort í henni væri eitthvað sérstakt um óhefðbundnar lækningar. En það er í raun og veru ekki neinn sérstakur kafli. Segja má að þessi heilbrigðisáætlun sé kannski svolítið vísindaleg í framsetningu sinni. Mikið er fjallað um framfarir og þróun á sviði læknavísindanna og kannski eru svolítið háfleygari þættir þar nefndir til sögunnar en þó er mjög falleg framtíðarsýn í þessari heilbrigðisáætlun þar sem þess er óskað að heilbrigðisþjónustan geti þroskast á þann hátt að í framtíðinni verði það eitt af meginverkefnum bæði stjórnvalda og almennings að ákveðið samræmi verði í framkvæmd heilbrigðisþjónustu, félagslegrar þjónustu, umhverfisverndar og fleiri verkefna samfélagsins. Í þeirri framtíðarsýn sem hér felst tel ég vera fullt rúm fyrir óhefðbundnar lækningaaðferðir.