Óhefðbundnar lækningar

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 17:01:31 (4744)

2001-02-15 17:01:31# 126. lþ. 71.7 fundur 173. mál: #A óhefðbundnar lækningar# þál., DSigf
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[17:01]

Drífa J. Sigfúsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur fyrir að taka þetta mál upp á þingi. Það er mjög tímabært að málið sé tekið upp og unnið af ráðuneytinu og þess vegna held ég að það sé mikið framfaraspor sem hér verður stigið.

Nauðsynlegt er að skrá þær upplýsingar sem til eru á þessu sviði. Í gegnum aldirnar hafa lækningar verið stundaðar um allan heim og rétt er að hinar svokölluðu hefðbundnu lækningar byggja einmitt á þessum grunni. Áður fyrr var fólk sem stundaði þessar lækningar jafnvel brennt á báli, það voru launin fyrir að stunda lækningar. Við erum hætt að brenna fólk en við höfum hins vegar ekki enn veitt þessu fólki réttmæta viðurkenningu fyrir störf þess. Við höfum sjálfsagt öll séð jákvæð áhrif vegna starfa þessa fólks með einum eða öðrum hætti. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að settur sé lagarammi þar sem farið er yfir málin og réttindi þeirra sem stunda þessa grein og líka neytenda sem vilja notfæra sér þau úrræði sem þarna bjóðast. Ég held að þetta eigi einmitt að vinna með hefðbundnum lækningum og ég held líka að nauðsynlegt sé að taka þetta sem þátt inn í þá kennslu sem fer fram í háskólanum. Ég held nefnilega að það þurfi að vinna miklu meira saman en gert er og ég held að við höfum í mörgum tilvikum séð hvað hægt er að gera með þessum svokölluðu óhefðbundnu lækningum sem hefur ekki tekist með hinum svokölluðu hefðbundnu lækningum.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að unnið sé að málinu. Ég man eftir því fyrir allmörgum árum þegar ég fór í vinabæjarheimsókn til Miðvogs í Færeyjum að þar var fenginn hnykklæknir til að koma í grunnskólann og hann var látinn stilla borð og stóla fyrir nemendur tvisvar á ári til þess að koma í veg fyrir bakverki. Hvað mundi slíkt spara fyrir heilbrigðiskerfið og samfélagið ef unnið yrði með þessum hætti hér á landi? Ég er alveg sannfærð um að við mundum ná þeim kostnaði fljótt til baka. Ég held að þetta sé eitt af því sem við höfum ekki skoðað og það er ugglaust ýmislegt á mjög mörgum öðrum sviðum sem við hefðum átt að skoða því að það er svo margt sem hægt er að gera fyrirbyggjandi en við höfum ekki sinnt því að við höfum eiginlega bara verið í björgunaraðgerðum eftir að fólk hefur fengið sjúkdóma.

Ég held líka að það sem komið hefur fram hjá nokkrum þingmönnum sé mjög mikilvægt, þ.e. að fólk taki einmitt með þessum hætti meiri ábyrgð á því sem það er að gera af því að það finnur að þarna er eigið val og það er að gera eitthvað sjálft til að bæta heilsu sína. Þarna kemur að ákvörðun sem er kannski með öðrum hætti en ef það snýr sér til hefðbundins læknis.

Ég held líka að það sé afar mikilvægt þegar þetta er unnið, sem ég vona að verði bæði fljótt og vel, að þá öðlist þeir aðilar sem sinna þessu viðurkenningu og heyri þá eðlilega undir landlækni og að neytendur geti þá snúið sér til landlæknis ef eitthvað kemur upp á, bæði þeir sem veita þessa þjónustu og líka neytendur. Ég held að báðir aðilar ættu að leita beint til landlæknis og þar verði eftirlit yfirvalda og óhefðbundnar lækningar fái þar stöðu við hlið lækna sem nú eru starfandi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira. Mér finnst hins vegar afar mikilvægt að þetta mál fái góðan framgang á þingi. Þess vegna legg ég til að þingmenn leggi sig fram um að ljúka málinu fyrir þinglok í vor.