Suðurnesjaskógar

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 17:14:25 (4747)

2001-02-15 17:14:25# 126. lþ. 71.8 fundur 174. mál: #A Suðurnesjaskógar# þál., Flm. KPál (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[17:14]

Flm. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um Suðurnesjaskóga, landshlutabundið verkefni um landgræðslu og skógrækt á Suðurnesjum. Meðflutningsmenn mínir eru Drífa Hjartardóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Lúðvík Bergvinsson og Kjartan Ólafsson. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að beina því til landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp til að undirbúa landshlutabundið verkefni um landgræðslu og skógrækt á Suðurnesjum.

Starfshópurinn skili tillögum sínum nógu tímanlega til að verkefnið geti hafist eigi síðar en árið 2002.``

[17:15]

Herra forseti. Tillaga þessi er endurflutt frá fyrra þingi, lítið breytt að undanskildu gróðurkorti sem starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands, þeir Eyþór Einarsson og Einar Gíslason, hafa gert og góðfúslega leyft mér að birta með þessari þáltill. Fyrir áhugamenn um skógrækt er kortið um gróður við landnám afskaplega uppörvandi. Samkvæmt því hafa Suðurnesin verið skógi vaxin frá ystu nesjum til efstu fjallatinda sem er allt önnur ímynd en við höfum haft af þessu svæði, að þar geti enginn gróður dafnað nema gras vegna seltu og stöðugs vindsperrings.

Ég varð var við það, herra forseti, á hv. Alþingi í fyrra þegar ég flutti þetta mál í fyrra sinn, að trú sumra manna á skógrækt á Suðurnesjum var afskaplega lítil og hefur lítið breyst undanfarið. Þegar ég spurði einn félaga minn nú í haust hvort hann vildi vera með mér á þessari tillögu sagði hann: Ég hef aldrei vitað til þess að skógur gæti nokkru sinni vaxið á Suðurnesjum. Svo var nú það, herra forseti.

Svo að ég skýri þessi kort lítillega þá sýnir annað kortið gróður við landnám, þ.e. kenningu þeirra félaga um hvernig gróðurfarið hafi verið árið 874, en hitt er miðað við gróðurinn eins og hann er í dag. Kortin eru af suðvesturhluta landsins. Á landnámskortinu má sjá að skógi vaxið hefur verið frá Garðskaga suður á Reykjanestá til Grindavíkur og austur með, allt að Ölfusá og upp með henni. Ef við förum frá Garðskaga inn Faxaflóann þá er skógi vaxið austur úr að Stapa, að Strandaheiði og inn til Reykjavíkur, upp á Hellisheiði og svo áfram inn í Hvalfjörð. Með öðrum orðum er skógi vaxið milli fjalls og fjöru og liturinn á kortinu því að mestu dökkgrænn.

Á kortinu yfir gróðurinn í dag er engan dökkgerðan blett að sjá frá Garðskaga að Reykjanestá og þaðan allt austur að Ölfusárósum, utan einn lítill blettur við Herdísarvík. Frá Garðskaga inn að Faxaflóa, að Stapa og Strandaheiði, inn til Reykjavíkur og upp að Hellisheiði og áfram upp í Hvalfjörð er enginn grænn blettur, utan smáblettir í Hvassahrauninu og í Heiðmörk. Giska má á að um 95% alls skóglendis á þessu svæði hafi horfið frá landnámi.

Að áliti sérfræðinga hefur skógurinn verið lágvaxinn næst sjónum, um ein mannhæð en um tvær mannhæðir inn til landsins. Þessa niðurstöðu hafa þeir félagar fengið með því að grafa undir hraun á Reykjanesskaganum en þá hefur komið í ljós að þar undir eru alls staðar miklar gróðurleifar sem sýna að fyrir gos var þarna bæði birki og víðir. Þetta hefur að þeirra mati verið svo um land allt, eins og sögur landnámsmanna herma, landið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Sprengisandur var meira að segja skógi vaxinn, þar sem aðeins eru sandar og hraun í dag. Gróður er talinn hafa eyðst þar í gosi á 15. öld. Svo hefur einnig orðið um mest af þeim skógi sem þakti Reykjanesið en eldgos eyddi skóginum með hrauni og ösku.

Að mati sérfræðinga hefur orðið svipað eldgos löngu fyrir landnám, t.d. við Heklu og Veiðivötn en þó án teljandi skemmda á gróðri. Það verður því að álykta sem svo að tilkoma mannsins með búfénað sinn og skógarhögg hafi leitt til þeirrar gróðureyðingar sem orðið hefur á Reykjanesskaganum og reyndar um land allt.

Strax við landnám árið 874 er byrjað að höggva skóga og beita búfénaði í hann, enda gengu skepnur á þeim tíma að mestu leyti úti allan ársins hring. Mikil eldsumbrot við Reykjanes árið 1226 með miklu öskufalli eru talin hafa ráðið mestu um þá skógareyðingu sem þá varð. Eyðingarmáttur öskunnar er talinn hafa valdið mestu um en þegar skógurinn var orðinn höggvinn, ásamt mikilli beit í á fjórða hundrað ára frá landnámi, var gróðurinn mjög viðkvæmur. Askan átti því greiða leið um allt og hefur sorfið skóginn niður eins og sandpappír.

Heimildir segja okkur reyndar að eldgos hafi verið ótrúlega tíð á Reykjanesi eftir landnám. Í greinum I og II um Krýsuvíkurelda, eftir Sigmund Einarsson og Hauk Jóhannesson, eru leiddar líkur að því að yngra Hellnahraun, Breiðdalshraun og Tvíbollahraun í Hafnarfirði hafi runnið 894--923 eða 938--983. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1152 og Kapelluhraun í sömu goshrinu, sem kölluð hefur verið Krýsuvíkureldar. Þá gaus frá Undirhlíðum, Trölladyngju og allt til Krýsuvíkur og rann Ögmundarhraun þá í sjó fram við Selatanga en Kapelluhraun í sjó fram við Straumsvík.

Nokkur önnur hraun hafa runnið á þessum árum á svipuðum slóðum, t.d. Mávahlíðahraun og Lækjarvallahraun. Langstærst eru þó Ögmundarhraun 18,6 km2 og Kapelluhraun 13,7 km2.

Sagnir eru um mikla elda í Brennisteinsfjöllum á 10. öld en þá rann svokallað Kristnitökuhraun. Ágiskanir eru um að yngra Hellnahraun og Svínahraun hafi þá myndast í einu og sömu goshrinunni í Brennisteinsfjöllum. Til gamans má rifja upp að sagan segir að fyrir þetta gos hafi Kaldá fyrir ofan Hafnarfjörð runnið úr Þingvallavatni og verið eitthvert mesta vatnsfall á Íslandi, hverju sem á nú að trúa um það.

Mikil goshrina varð á árunum 1210--1240 í sjónum undan Reykjanesi. Annálar, Guðmundar saga góða, Íslendinga saga og fleiri sagnir greina frá miklum gjóskum samfara þessum gosum og er talað um sumarið 1226 sem sandsumar og veturinn 1226--1227 sem sandvetur. Svo mikið gjóskufall varð sumarið 1226 að myrkur var um miðjan dag. Í annálum Gísla Oddssonar segir svo um þetta ár, með leyfi forseta:

,,Vetur markverður vegna skaðlegs sandfoks, einnig myrkvi í hádegi. Eldgos úr hafi við Reykjanes.``

Í Íslendinga sögu segir: ,,Þessi vetur var kallaður sandvetur og var fellivetur mikill og dó hundrað nauta fyrir Snorra Sturlusyni í Svignaskarði.``

Svipuð óáran virðist hafa gengið yfir árið 1231, þá segir Gísli Oddsson í annál sínum: ,,Sól rauð sem blóð, eldgos aftur við Reykjanes.``

Augljóst er að eyðingarmáttur sandsins á viðkvæmum skóginum hefur verið gríðarlegur við þessar náttúruhamfarir. Það er þó álit sérfræðinga að áhrif mannsins hafi gert útslagið í þeirri miklu gróðureyðingu sem orðið hefur frá landnámi eins og fyrr er getið. Það sést á áhrifum Heklugoss á gróðurinn fyrir og eftir landnám. Öskufall úr Heklu hafði sáralítil áhrif þegar skógurinn var heill og óhöggvinn fyrir landnám en eyddist að mestu vegna eldgoss í Heklu á 15. öld.

Hin síðari ár, eftir að mikið land var friðað, hefur gróður sprottið upp og má í því sambandi benda á Viðey. Þar eru teinungar alls staðar að koma upp af víði og birki og er ljóst að náttúran mun sjá um endurheimt skógarins þar sem alger friðun er fyrir beit og skógarhöggi. Það mun þó taka mjög langan tíma á því berangri sem er á Suðurnesjum, þar sem sjávarselta og vindsperringur er tíðum. Með hjálp mannsins má hins vegar flýta þessu ferli eins og dæmin sanna um allt land. Margar vinnufúsar hendur hafa þar komið að uppgræðslu landsins undanfarna áratugi og unnið kraftaverk, oft við lítil efni.

Á Suðurnesjum er þessi árangur augljós. Þar má nefna ræktaða greniskóga eins og við Sólbrekkur. Birkihríslur og víðir er í hraunum á Suðurnesjum þó ekki myndi þar skóga. Það er þó vísirinn að því sem getur orðið ef hlúð er að gróðrinum sem fyrir er og ræktað er upp með því að styrkja gróðurþekjuna og planta trjám. Til að einhver árangur sjáist þarf mikið fjármagn en því miður hefur það verið af skornum skammti fram að þessu.

Herra forseti. Tilgangurinn með þessari tillögu er að fá fjármagn sem einhverju skiptir og nýta það eftir fyrir fram gerðri áætlun. Sú áætlun er lögð fram með þessari tillögu en eins og fram kemur í grg. er hugmyndin að setja á stofn landshlutabundið skógræktarverkefni í þeim anda sem gert hefur verið í öðrum landshlutum. Verkefnið verður þó frábrugðið hinum verkefnunum að því leyti að framkvæmdin getur ekki verið í höndum bænda því enginn búskapur er lengur til staðar á Suðurnesjum. Hugmyndin er því sú að framkvæmdin verði í höndum sveitarfélaga, skógræktarfélaga og aðila eins og Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs og fleiri. Auðvitað gætu orðið samvinnuverkefni úr þessu t.d. með Suðurlandsskógaverkefninu og væri rétt að skoða það í nefndinni sem tillagan gerir ráð fyrir að landbrh. setji á laggirnar. Það er þó umhendis eins og fyrr er sagt vegna ólíkra framkvæmdaraðila og jafnframt er samgangur lítill á milli svæðanna.

Ég hef rætt framhald málsins bæði við hæstv. landbrh. og hv. formann landbn., Hjálmar Jónsson, og er mikill skilningur á þessu máli hjá báðum þessum heiðursmönnum. Ég vænti þess því að málið fái skjóta afgreiðslu í hv. landbn.

Ég hef tekið eftir því, herra forseti, þó þetta mál hafi ekki farið hátt í fjölmiðlum, að mikill fjöldi fólks fylgist með framgangi þess. Það er að mínu áliti vegna þess hversu áhugi landsmanna er almennt mikill fyrir skógrækt og uppgræðslu landsins. Þeim peningum sem fara í verkefni af þessu tagi er að mati almennings vel varið. Það eykur hróður Alþingis og ríkisstjórnar að myndarlega sé að þessum málum staðið.

Það er ekki hugmynd okkar á Suðurnesjum að þar rísi háreistur gróður heldur verði þetta venjubundnir birki- og víðiskógar sem skapi skjól fyrir menn og dýr og fegri umhverfið öllum til yndisauka. Það gæti einnig orðið hluti af framlagi okkar Íslendinga til að binda koltvísýring úr andrúmsloftinu sem er partur af því verkefni að uppfylla Kyoto-bókunina og draga þar með úr áhrifum gróðurhúsalofttegunda á hitastig jarðar.

Herra forseti. Ég legg til að þetta mál verði sent til landbn. og síðari umr.