Staða Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 15:12:31 (4752)

2001-02-19 15:12:31# 126. lþ. 72.91 fundur 306#B staða Íslands í Evrópusamstarfi# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ástæða þessarar utandagskrárumræðu er, eins og kom fram hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, bréf framkvæmdastjórnarinnar frá því í janúar til EFTA-ríkjanna þar sem þeim er í reynd meinuð þátttaka í nefnd sem fjallar um þjálfun sjómanna. Í bréfinu kemur fram að skilningur framkvæmdastjórnarinnar á 100. gr. EES-samningsins, sem tryggt hefur EFTA-ríkjunum afar víðtækan aðgang að nefndastarfi framkvæmdastjórnarinnar fram að þessu, er mun þrengri en tíðkast hefur til þessa.

Einkum veldur þrennt áhyggjum í þessu sambandi:

Í fyrsta lagi virðist túlkun framkvæmdastjórnarinnar stangast á við þá framkvæmd sem tíðkast hefur á nefndasetum okkar fram til þessa.

Í öðru lagi má skilja af bréfinu að ætlun framkvæmdastjórnarinnar sé að úthýsa EFTA-ríkjunum úr starfi allra nefnda á þessu sviði.

Í þriðja lagi virðist sú stjórnardeild sem fer með samgöngumál hafa haft samráð við aðrar stjórnardeildir framkvæmdastjórnarinnar við samningu þessa bréfs en þær eru líklega utanríkismáladeild og lagadeild framkvæmdastjórnarinnar.

Þrátt fyrir að afar slæmt sé fyrir EFTA-ríkin að hafa ekki aðgang að nefndastarfi á þessu sviði þá hef ég mestar áhyggjur af því að túlkun sem þessi fari að láta kræla á sér víðar. Orðalag bréfsins gefur til kynna að hætta geti verið á slíku. Ef það verður raunin mun það að meira eða minna leyti setja allt nefndastarf EFTA-ríkjanna í uppnám. Slík aðstaða væri andstæð upphaflegum skilningi samningsaðila EES á nefndaþátttöku EFTA-ríkjanna. Utanrrn. vinnur nú að því eftir óformlegum leiðum í samvinnu við hin EFTA-ríkin að endurheimta nefndasetu í umræddri nefnd og koma í veg fyrir að okkur verði meinuð þátttaka í fleiri nefndum á þessu sviði. Við vonum að sjálfsögðu að það muni takast og frekari uppákoma af þessu tagi sé ekki að vænta í samstarfi okkar við Evrópusambandið.

Að því er varðar aðra spurningu hv. þm. er rétt að taka fram að eftir gildistöku EES-samningsins hefur ESB þróað ýmis ný samstarfssvið sem falla ekki beint undir ramma EES en teljast hluti af innri markaðnum. Í þeim tilvikum hafa EFTA-ríkin þurft að semja sérstaklega um þátttöku í starfi þessara stofnana, þar má t.d. nefna Lyfjamálastofnun Evrópu. ESB vinnur nú að því að setja á laggirnar fleiri stofnanir m.a. á sviði öryggismála á sjó, matvælaöryggis og flugöryggis og er afar mikilvægt fyrir íslenska hagsmuni að við fáum einhvers konar aðild að þessu starfi. Við leggjum á það mikla áherslu þannig að segja mætti að ávallt séu í gangi viðræður við Evrópusambandið til að styrkja stöðu okkar á þessu sviði. Hins vegar hafa EFTA-ríkin, eins og hv. þm. spurði um, ekki farið fram á neinar formlegar viðræður um breytingu á EES-samningnum.

Einnig er spurt um líkurnar til þess að ná ásættanlegri niðurstöðu úr slíkum viðræðum, fari þær fram. Fyrst verður að ákveða hvort í það verður farið og því er ekki að neita að hjá ýmsum gætir verulegrar svartsýni um að hægt sé að ná þar ásættanlegri niðurstöðu. Um það vil ég ekki fullyrða fyrir fram enda er það að sjálfsögðu matsatriði hvað mönnum þykir ásættanlegt í þeim efnum. Fáist ekki það sem hv. þm. kallar ásættanlega niðurstöðu í því sambandi er alveg ljóst að hinn kosturinn er aðildarviðræður og beiðni um aðildarviðræður að Evrópusambandinu með öllum þeim göllum og kostum sem því fylgir. Það er að sjálfsögðu afskaplega erfitt að svara fyrir hér. Þetta þarf hins vegar Alþingi og stjórnmálaflokkar að fara yfir og gera sér grein fyrir.

Í fimmta lagi er spurt hvort unnið sé að því í utanrrn. að skilgreina samningsmarkmið fyrir aðildarviðræður við Evrópusambandið. Svarið er: Nei, engin slík vinna er í gangi enda er það ekki á stefnuskrá núv. ríkisstjórnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu.