Staða Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 15:33:05 (4760)

2001-02-19 15:33:05# 126. lþ. 72.91 fundur 306#B staða Íslands í Evrópusamstarfi# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf við þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Ég heyri að hér inni eru þingmenn sem draga það í efa að umræða eins og þessi sé þörf á þessum tíma. Ég tel hana þarfa vegna þess að augljóst er að á undanförnum örfáum vikum og mánuðum hefur staða okkar veikst í þessu samstarfi og það sem áður lá fyrir óformlega hefur að mínu mati verið staðfest formlega með bréfi til EFTA þannig að farið er að hitna undir okkur og Norðmönnum í þeim nefndum sem við höfum þegar tekið þátt í fram að þessu, stefnumótandi nefndum.

Mæðuleg eða ekki mæðuleg. Það er þörf á því að ræða þessi mál hér án þess að vera með skæting, fara málefnalega yfir þau og skoða þá stöðu sem við erum í. Atvinnulífið er að gera það, unga fólkið okkar er að því. Og það er sjálfsagt að Alþingi eyði í þetta mikilvæga mál heldur meiri tíma en gert hefur verið að undanförnu. Ég ítreka að ég tel að við höfum ekki unnið eins vel úr skýrslunni sem utanrrh. skilaði fyrir ári síðan og efni stóðu til.

Hvað varðar hins vegar svör hæstv. ráðherra þá harma ég að EFTA-ríkin skuli ekki hafa tekið þá afstöðu að fara í formlegar viðræður um breytingar á EES-samningnum þannig að það liggi fyrir nákvæmlega hver staða okkar er. Það er þörf á því og þörf er á að skilgreina þau samningsmarkmið sem Íslendingar standa fyrir ef til þess kemur að niðurstaða okkar verði að besta úrræðið sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Auðvitað mun okkur ekki líka við allar gjörðir Evrópusambandsins, þannig er það ekki í samningum. Það veit hv. þm. Ögmundur Jónasson. Þannig er það ekki. En það er nauðsyn fyrir okkur að styrkja stöðu Íslands meðal þjóðanna og það gerum við með því að halda vöku okkar.