Könnun á áhrifum fiskmarkaða

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 16:15:20 (4766)

2001-02-19 16:15:20# 126. lþ. 72.11 fundur 243. mál: #A könnun á áhrifum fiskmarkaða# þál., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það var að sönnu rétt sem hv. þm. Jón Bjarnason rakti hér um óréttlæti þess að útgerðaraðilar gætu sjálfir ákveðið að flytja út hluta af þeim afla sem þeir veiða á Íslandsmiðum án þess að gefa íslenskri fiskvinnslu kost á að bjóða í hann og taka til vinnslu bjóði þær betur.

Hv. þm. orðaði það þannig í umfjöllun sinni, þegar hann talaði um þann afla sem fer á fiskmarkaði, eða ég skildi hann svo að hann væri fyrst og fremst að tala um afla sem ekki færi til eigin vinnslu. Það mundi þá þýða að hann væri hlynntur því að aðilar hefðu áfram val um hvort þeir lönduðu fiski í eigin vinnslu eða settu hann á fiskmarkaði.

Ég spyr hv. þm. hvort hann telji að löndunarskylda, sem einungis á við gagnvart þeim fiski sem fluttur er til útlanda, mundi geta gengið upp ef menn hefðu öðru leyti frjálsan ráðstöfunarrétt á þeim afla sem þeirra skip koma með að landi. Mér finnst þetta mjög mikilvægt atriði vegna þess að við erum alltaf að horfa til þess að þeir sem eins er ástatt um hafi sömu skyldur.

Í öðru lagi vil ég fá aðeins nánari útskýringu og vita hvort ég heyrði rétt, að þingmaðurinn hafi mælt því bót að landvinnslan gæti átt rétt á veiðiheimildum, þ.e. að það væri hægt að úthluta veiðiheimildum til fiskvinnslunnar sjálfrar en ekki bara á skip. Hér er um stórt álitaefni að ræða sem mundi kannski raska öllum samningum sjómanna og breyta því kerfi sem þeir hafa unnið eftir. Það er líka mjög mikilvægt að skoðun þingmannsins komi þá klárt og kvitt fram hvað þetta atriði varðar.