Könnun á áhrifum fiskmarkaða

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 16:17:15 (4767)

2001-02-19 16:17:15# 126. lþ. 72.11 fundur 243. mál: #A könnun á áhrifum fiskmarkaða# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[16:17]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi sérstaklega gera athugasemdir við útflutning á gámafiski og ekki að blanda því endilega inn í aðra ráðstöfun. Það er í sjálfu sér sérmál og að mínu viti afar alvarlegt mál, að útgerðin geti flutt út óunninn fisk í gámum. Fiskurinn er þá í sjálfu sér ekki seldur sem sérstök ferskvara sem á að fara á ferskmarkað, sem er allt annað mál, heldur er hann að fara til vinnslu án þess að aðilar hér innan lands hafi haft aðgang að honum. Ég vildi draga þetta skýrt fram.

Varðandi beinan aðskilnað á því hvort aðilar megi vinna eigin fisk finnst mér upp geti komið álitamál, allt frá smáum málum, t.d. þar sem grásleppubóndi veiðir grásleppu, saltar hrogn og selur, upp í önnur stærri mál. Ég tel þó að einnig þurfi að setja aðlögunarreglur fyrir þá sem stunda bæði fiskvinnslu og fiskveiðar og vinna sjálfir aflann, um að hluti af aflanum skuli fara á markað frekar en er eða að þeir séu skyldugir til að setja allan aflann á markað.

Ég vildi hins vegar draga sérstaklega fram þetta með gámafiskinn sem ég tel að sé afar óréttmætt gagnvart íslenskri fiskvinnslu, að eiga ekki aðgang að honum.

Að öðrum atriðum sem hv. þm. minntist á skal ég reyna að koma á eftir.