Könnun á áhrifum fiskmarkaða

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 16:40:51 (4773)

2001-02-19 16:40:51# 126. lþ. 72.11 fundur 243. mál: #A könnun á áhrifum fiskmarkaða# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[16:40]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristjáns Pálssonar sagði að fiskvinnslan í Bolungarvík hefði ekki náð að aðlaga sig með því að kaupa fisk sem þar kemur að landi. Ég held að fiskvinnslan fyrir vestan hafi nú smátt og smátt verið að aðlagast mörkuðunum og muni gera það í vaxandi mæli ef menn fá að vita og geta treyst því að þeir hafi aðgang að fiski á mörkuðum. Mér finnst þessi fullyrðing dálítið frasakennd. Þetta er svona svipuð fullyrðing og þegar því var haldið fram að Vestfirðingar hefðu ekki náð að vinna með kvótakerfinu.

Ég hef svarað því þannig að Vestfirðingar náðu ágætlega að vinna með kvótakerfinu. Þeir náðu hins vegar ekki að spila á það. Þeir spiluðu með því en gleymdu að spila á það. Ég veit ekki hvort við eigum að fara nokkuð út í þá umræðu hér. En það er alveg ljóst að mörgum tókst að spila hressilega á kvótakerfið þegar þeir voru að kaupa útgerðir og aflaheimildir og keyptu tapið með og síðan borguðu skattborgararnir aflaheimildirnar í gegnum afskriftir. Ég held að munurinn hafi kannski legið í því í viðskiptum margra útgerðarfyrirtækja á Vestfjörðum að menn keyptu kvótann en ekki tapið. Og vegna þeirrar fullyrðingar að Vestfirðingar nái ekki að tileinka sér þessa þætti þá vil ég t.d. benda á frystihús eins og í Súgandafirði og hraðfrystihúsið í Hnífsdal, sem ég veit að hv. þm. þekkir vel. Þar hafa menn mikið farið yfir í flugið og að flytja fisk út ferskan.