Umboðsmaður neytenda

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 16:59:07 (4776)

2001-02-19 16:59:07# 126. lþ. 72.23 fundur 442. mál: #A umboðsmaður neytenda# þál., Flm. DSigf (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[16:59]

Flm. (Drífa J. Sigfúsdóttir):

Herra forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar ásamt Kristni H. Gunnarssyni, Ólafi Erni Haraldssyni og Ísólfi Gylfa Pálmasyni. Tillagan fjallar um umboðsmann neytenda og hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að stofnað verði embætti umboðsmanns neytenda. Embættinu verði ætlað að gæta hagsmuna neytenda, svo sem að farið sé eftir gildandi leikreglum, tekið sé tillit til sjónarmiða neytenda, settar verði almennar viðmiðunarreglur í viðskiptum, jafnaður ágreiningur milli neytenda og hagsmunaaðila og þannig um búið að umboðsmaðurinn geti farið með mál neytenda fyrir dómstóla.``

Greinargerðin hljóðar svo:

,,Á síðustu árum hafa verið samþykkt margvísleg lög á Alþingi sem bætt hafa stöðu neytenda. Ástæða þess er m.a. sú að neytendur standa höllum fæti við að ná fram rétti sínum gagnvart fyrirtækjum. Fyrirtækin hafa yfir að ráða sérþekkingu og meira fé en almennur neytandi. Samfélagið verður sífellt flóknara og því erfiðara fyrir neytendur að átta sig á rétti sínum og réttarúrræðum. Umkvörtunarefni neytenda eru fjölmörg en oft smá. Ef fyrirtækin eru ekki tilbúin til að leysa úr ágreiningsmálunum tekur því sjaldnast fyrir neytendur að leita lausna með aðstoð dómstóla þar sem lögfræðikostnaður nemur oftast margfalt hærri fjárhæð en upphaflegt umkvörtunarefni snerist um. Sem dæmi má nefna að algengt er að kvartað sé í kjölfar kaupa á fötum eða hreinsunar á fatnaði. Að vísu eru til fjölmargar kvörtunar- og úrlausnarnefndir sem úrskurða í neytendamálum en úrskurðir þeirra eru sjaldnast bindandi fyrir fyrirtækin. Þá vantar mikið upp á að neytendur þekki þessar úrlausnarleiðir auk þess sem þær vantar enn á ýmsum sviðum, t.d. varðandi ágreiningsefni um þjónustu tannlækna. Hér á landi er ekki hægt að leita til óháðs aðila og láta meta hvort dýrar aðgerðir séu nauðsynlegar eða hvort rétt hafi verið að verki staðið. Þennan möguleika hafa hins vegar bæði Bretar og Ítalir.

[17:00]

Allir landsmenn eru neytendur og flestir þeirra vilja gjarnan eiga aðgang að úrlausnarleiðum fyrir neytendur þegar réttur þeirra er brotinn. Mikilvægt er að halda uppi eðlilegu aðhaldi og eftirliti jafnframt því sem neytendur hafi góða yfirsýn yfir markaðinn.

Hlutverk umboðsmanns neytenda er að tryggja að eðlilegar og sanngjarnar leikreglur ríki á markaðinum. Hann gætir hagsmuna neytenda, sér til þess að farið sé eftir gildandi leikreglum og að tillit sé tekið til sjónarmiða neytenda, setur almennar viðmiðunarreglur í viðskiptum og gegnir hlutverki sáttasemjara í ágreiningsmálum milli neytenda og hagsmunaaðila. Umboðsmaður getur farið með mál fyrir dómstóla til varnar hagsmunum neytenda að eigin frumkvæði og/eða fylgt málum eftir. Umboðsmaður sinnir kvörtunum frá neytendum sem kaupa vöru (eða þiggja) og/eða þjónustu bæði frá einkaaðilum og opinberum aðilum.

Alls staðar annars staðar á Norðurlöndum er starfandi umboðsmaður neytenda auk neytendastofnana á vegum hins opinbera og frjálsra neytendasamtaka. Þá hafa Neytendasamtökin lengi óskað eftir því að stofnað verði sérstakt embætti umboðsmanns neytenda hér á landi.

Eitt af þeim verkefnum sem umboðsmaður neytenda í Svíþjóð hefur unnið að er bættur aðgangur neytenda að tækninýjungum, svo sem að leiðbeiningar með flóknum tækjum, t.d. myndbandstækjum og tölvum, séu á skiljanlegu máli og settar fram á einfaldan hátt. Hann hefur samið viðamikla skýrslu um aðgang aldraðra og fatlaðra að tækninýjungum, svo sem að hraðbankar séu hannaðir þannig að þeir henti öllum neytendum. Vinna hans fyrir þá sem sjá illa, eiga erfitt um hreyfingar eða eiga við aðra fötlun að stríða hefur verið kynnt víða.

Ef ákveðið verður að stofna embætti umboðsmanns neytenda á Íslandi þarf að semja tvenn lög úr núverandi samkeppnislögum, þ.e. lög um samkeppni og lög um neytendavernd. Þannig mundi sá kafli samkeppnislaga sem fjallar um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd falla undir umboðsmann neytenda. Auk þess væri eðlilegt að kafli samkeppnislaga um greiðslukortastarfsemi félli einnig undir hann. Eðlilegt væri einnig að sum sérlög sem samþykkt hafa verið til að auka neytendavernd færðust frá Samkeppnisstofnun til umboðsmanns neytenda, svo sem lög um lánsviðskipti og alferðir (pakkaferðir). Einnig ætti umboðsmaður neytenda að fylgjast með ólögmætum samningsskilmálum í stöðluðum samningum og grípa inn í þegar um óeðlilega skilmála væri að ræða. Til að tryggja öfluga en um leið sanngjarna samkeppni er því best að samkeppnisyfirvöld gæti samkeppninnar en umboðsmaður neytenda sinni neytendavernd.``

Lengri er greinargerðin ekki, herra forseti. Það er mikilvægt að hjálpa heimilum landsins til að nýta fjármagn sitt og önnur gæði sem best. Þá er mikilvægt að vernda heilsu og öryggi neytenda ásamt því að auka gæði og varanleika framleiðsluvara.

Forvarnir eru mikilvægar svo sem með lögum reglugerðum eða með stöðlum, eftirlit á markaði, bættri framleiðsluvöru og auknum gæðum þeirra, og síðast en ekki síst með fræðslu til neytenda þannig að þeir geti sjálfir leyst sem mest úr sínum málum.

Það er hins vegar algengt að ýmis framleiðsluvara uppfylli bæði lög og reglugerðir en að varan endist hins vegar illa. Hún getur enst æðistutt. Sem dæmi má nefna að nokkuð margir barnavagnar hafa staðist öryggiskröfur en ending þeirra hefur engan veginn verið góð.

Umboðsmaður neytenda mundi sem sagt koma fram fyrir hönd neytenda í sambandi við viðskipti og sækja leiðréttingu þeim til handa. Einkum mundi hann njóta sín í því sem snýr að lagafyrirmælum. Að vísu á eftir að taka ákvörðun um hvaða lög heyrðu undir hann þó svo að hér hafi verið varpað fram hugmyndum. Það má hugsa sér að hann mundi taka á ýmsu. Það er margt varðandi ný kaupalög sem sjálfsagt þarf að reyna á, t.d. öryggi framleiðsluvöru. Að vísu er markaðseftirlitið hjá Löggildingarstofu og fleirum.

Við þekkjum mjög alvarleg dæmi um hættulega framleiðsluvöru, t.d. snuðkeðja sem olli dauða barns í Danmörku. Við vitum líka að fyrir fáeinum árum settu kornflöguframleiðendur gjarnan smáhluti í kornflekspakka og það varð til þess að öldruð sjóndöpur kona í Belgíu kafnaði vegna þessa. Þess vegna voru settir nýir staðlar og gerðar breytingar. Það er að mörgu að hyggja.

Ekki er langt síðan það kom fram í Svíþjóð að fatnaður sem ætlaður var kornabörnum, ungbörnum, var stútfullur af blýmengun. Það er ekki það sem við viljum vegna þess að allir þekkja hve blýmengun er alvarleg og hve varanleg hún er.

Hér á landi hafa oft verið deilur um alferðir, þ.e. ferðapakka, hótel o.s.frv. sem ekki stenst væntingar og talið að auglýsingar séu villandi vegna ýmissa skilmála. En það hefur að vísu batnað. Sænski umboðsmaðurinn hefur gjarnan tekið á því sem snýr að auglýsingum. Að vísu er hér starfandi siðanefnd en ég held að það sé mjög mikilvægt að sterkara apparat sé þarna á bak við, þ.e. umboðsmaður.

Það er mikilvægt að vernda neytendur gagnvart þeim sem misnota vald sitt viljandi eða óviljandi. Unglingar eru t.d. viðkvæmir neytendur. Þeir eru orðnir mjög öflugur neytendahópur t.d. símafyrirtækja, samanber GSM-símana, kvikmyndahúsa, myndbandaleigna og ýmss tískufatnaðar. Fyrirsætur sem auglýsa fatnað tískuhúsanna og almennt í tímaritum eru oftast mjög horaðar og ungar stúlkur sem bera sig saman við þá ímynd hafa margar hverjar lent í mikilli ógæfu. Þetta er mjög vandmeðfarið. Það þarf ekki endilega að vera ólöglegt til þess að það valdi skaða.

Við þekkjum öll umræðuna að undanförnu um hreinleika matvöru, kúariðuna, salmonelluna. Ég ætla ekki að ræða það frekar. Nefna má ýmis lög sem varða kaup og sölu á notuðum bílum, lausafjármuni og neytendalán. Það er margt sem má nefna. Ég ætla ekki að telja það frekar upp en ítreka að eftirlit með tannlæknaþjónustu er mjög mikilvægt atriði sem bæði Neytendasamtökin og Tryggingastofnun hafa tekið upp við tannlæknafélagið en ekki hefur enn fengist úrlausn.

Það þekkist líka á hinum Norðurlöndunum að flest deilumál sem umboðsmaður neytenda kemur að leysast farsællega vegna þeirra áhrifa og valda sem hann hefur. Hann getur úrskurðað og jafnvel beitt fésektum ef ekki er farið eftir úrskurðum. Þá getur hann einnig höfðað mál fyrir hönd neytenda og náð þannig rétti þeirra. Það er auðvitað best að þurfa ekki að beita fyrirtækin hörðu en í sumum tilfellum er það nauðsynlegt. Reynsla hinna Norðurlandanna er sú að fá mál enda fyrir dómstólum. Langflest þeirra leysast áður. Sem betur fer hafa mörg fyrirtæki komið sér upp þróuðum og góðum starfsaðferðum við að leysa úr deilumálum eða ágreiningsefnum við neytendur og er það til mikillar fyrirmyndar.

Herra forseti. Tækninýjungar eru oft mjög flóknar og á engan hátt neytendavænar. Ég minni þá enn á sænska umboðsmanninn sem hefur lagt sérstaka áherslu á að þjónusta aldraða og fatlaðra varðandi tækninýjungar og þar má nefna eitt mikilvægt atriði, t.d. að allir geti lesið á skjái í flugstöðvum. Ég hugsa að ekki hafi allir hér í salnum lært t.d. á myndbandstækin sín. Það eru iðulega mjög flóknar leiðbeiningar á algengum heimilistækjum, hvað þá mjög mörg önnur tæki. Vörur sem seldar eru á neytendamarkaði þurfa að vera neytendavænar.

Við getum fundið ýmislegt í löggjöf nágrannalanda okkar sem við erum ekki með hér. Sem dæmi má nefna að um alla Svíþjóð er að finna ráðgjöf af hálfu sveitarfélaganna í málefnum neytenda. Svo er ekki hér á landi. Þetta er líka að finna í Noregi. Það er mikilvægt tæki.

Hér á landi má finna úrskurðarnefndir vegna ferðamála, kaupa á vöru og þjónustu, viðskipta neytenda við efnalaugar, tryggingamála, vegna viðskipta við fjármálafyrirtæki og úrskurðarnefndir Neytendasamtakanna, Húseigendafélagis og Samtaka iðnaðarins. Þá hafa Neytendasamtökin rekið öfluga kvörtunar- og leiðbeiningaþjónustu og Kvenfélagasambandið hefur einnig rekið ágæta leiðbeiningaþjónustu.

Herra forseti. Ég veit að málið þarfnast talsverðrar umræðu og það tekur tíma að vinna það áfram því það krefst lagabreytinga og breytinga á Samkeppnisstofnun. Þá minni ég að lokum á álit starfshóps sem hæstv. fyrrv. viðskrh., Finnur Ingólfsson, skipaði þegar lagt var til að stofnaður yrði starfshópur til þess að kanna málið betur. Í starfshópnum áttu sæti bæði fulltrúar neytenda og atvinnulífsins.

Herra forseti. Það er mikið hagsmunamál fyrir almenning að málefnum neytenda sé vel sinnt og því er þessi þáltill. flutt.