Umboðsmaður neytenda

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 17:19:11 (4779)

2001-02-19 17:19:11# 126. lþ. 72.23 fundur 442. mál: #A umboðsmaður neytenda# þál., Flm. DSigf
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[17:19]

Flm. (Drífa J. Sigfúsdóttir):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað og vonast eftir því að þáltill. fái gott brautargengi, hún fari til efh.- og viðskn. og fái þar gott brautargengi. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason sagði um verðlagningu vöru. Það er mikilvægt ákvæði sem ekki er í lögum hér á landi en finnst í Bandaríkjunum sem ég vildi vekja athygli á og snýr að kaupmanninum á horninu. Það er ákvæði sem bannar í raun að kaupmenn bjóði vöru sína ódýrar en hún er í innkaupum. Vegna þess að kaupmaðurinn á horninu getur aldrei keppt við stórmarkaði sem bjóða vöru á slíku verði. Hann verður alltaf að eiga fyrir útlögðum kostnaði. Þetta er eitt af mjög mikilvægum ákvæðum sem væri æskilegt að kæmi inn í íslensk lög. En ég viðurkenni að neytendur njóta hins vegar oft góðs af því til skemmri tíma litið að vara sé boðin jafnvel undir innkaupsverði. En til lengri tíma litið þá töpum við þessum verslunum sem eru á horninu og kaupmönnum á horninu sem veita mjög mikilvæga þjónustu. Ég held einmitt að þegar samkeppnin í matvöru er orðin eins og hún er á markaðnum í dag og við sjáum að verslunin safnast á færri hendur, þá er þetta ákvæði orðið mjög mikilvægt og ég held að Alþingi ætti að skoða hvort ekki sé nauðsynlegt að taka það upp hér.