Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 17:21:06 (4780)

2001-02-19 17:21:06# 126. lþ. 72.10 fundur 209. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., Flm. PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[17:21]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Frv. felst í því að 7. gr. laganna er felld brott. Í 2. gr. segir að lögin öðlist þegar gildi.

Herra forseti. Í 74. gr. stjórnarskrárinnar stendur að menn eigi rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, án þess að sækja þurfi um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Enn fremur segir í 74. gr. að menn eigi rétt á að taka þátt í félögum, en ekki sé hægt að skylda menn til þátttöku í félögum. Síðar í stjórnarskránni segir, herra forseti, að skattamálum skuli skipað með lögum og eigi megi leggja á skatt nema með lögum.

Herra forseti. Í 7. gr. sem um ræðir í lögum nr. 94/1986, sýnist mér að bæði ákvæðin séu brotin. Í greininni stendur svo, með leyfi herra forseta: ,,Starfsmaður, sem lög þessi taka til, á rétt til þátttöku í stéttarfélagi sem fer með samningsumboð samkvæmt lögum þessum eftir því sem samþykktir viðkomandi félags segja. Aðeins eitt félag fer með umboð til samninga fyrir hann.``

Þessi grein er í sjálfu sér óþörf, herra forseti, vegna þess að í stjórnarskránni er tryggt að menn geti stofnað félög og tekið þátt í félögum eins og þeim sýnist. Það er því engin ástæða til þess að heimila mönnum sérstaklega að eiga aðild að stéttarfélagi opinberra starfsmanna. Af þessum sökum er lagt til að ákvæðið verði fellt úr gildi. Það er óþarfi að hafa lög um að leyfa mönnum eitthvað sem er heimilt.

Í 2. mgr. umræddrar greinar, 7. gr., segir svo, með leyfi herra forseta: ,,Starfsmaður, sem lög þessi taka til og eigi er innan stéttarfélags samkvæmt lögum þessum, greiði til þess stéttarfélags, sem hann ætti að tilheyra, gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra eða sveitarstjórnar. Þá ákvörðun skal tilkynna viðkomandi stéttarfélagi.``

Þetta er í rauninni, herra forseti, dulbúin skylda til aðildar að félagi. Maður sem látinn er greiða til stéttarfélags sem hann er ekki aðili að nýtur ekki þeirra hlunninda sem stéttarfélagið veitir, þar á meðal orlofshús og fjöldann allan af öðrum atriðum sem eru hlunnindi sem stéttarfélögin veita gegn greiðslu félagsgjalds. Það væri fásinna hjá opinberum starfsmanni sem er látinn greiða fullt gjald til stéttarfélags að vera ekki aðili að því.

Þannig er þetta ákvæði í raun að mínu mati, herra forseti, brot á stjórnarskránni sem segir að ekki megi skylda menn til að vera í félagi. Opinberir starfsmenn eru í reynd skyldaðir til að vera í stéttarfélögum opinberra starfsmanna.

En það er meira, herra forseti. Skilyrði þess að skylda starfsmann til að greiða félagsgjöld til stéttarfélags án þess að skylda hann formlega til þátttöku er að um laun hans og önnur starfskjör fari samkvæmt samningum viðkomandi stéttarfélags. Eini ágóði starfsmannsins að því að greiða til stéttarfélagsins, sem hann er ekki félagi í, er að hann nýtur þeirra kjarasamninga sem félagið hefur gert. Þar sem starfsmaðurinn er ekki félagi í stéttarfélaginu nýtur hann ekki annarrar þjónustu félagsins þó hann greiði félagsgjald. Því er ekki hægt að líta svo á að hér sé um þjónustugjöld að ræða því hann fær ekki alla þá þjónustu sem gjaldið stendur venjulega undir. Hér er sem sagt ekki um þjónustugjöld að ræða, herra forseti.

Í þessu sambandi verður að hafa í huga að aðalefni kjarasamnings opinberra starfsmanna eru laun þeirra. Um réttindi þeirra og skyldur sem og rétt til orlofs og launa í veikindaforföllum, er að öðru leyti kveðið á um í sérlögum sem taka að sjálfsögðu til allra opinberra starfsmanna, hvort sem þeir standa innan eða utan stéttarfélaga. Enn fremur má benda á að með þeirri stefnu að heimila forstöðumönnum ríkisstofnana að gera persónulega samninga við starfsmenn um launakjör njóta starfsmenn utan stéttarfélags ekki þjónustu stéttarfélagsins nema í samningum um lágmarkslaun. Þróun undanfarinna ára, herra forseti, hefur verið í þá veru að menn sjá um kjarasamninga sína sjálfir, a.m.k. hvað varðar laun og kjör. Sjálfur þarf hann að semja um hærri laun. Eðlilegt er því að telja gjaldtökuna skattlagningu, þetta er ekki þjónustugjald sem maðurinn greiðir og ber að greiða samkvæmt lögum, heldur er hér um að ræða skattlagningu. En skv. 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar er framsal skattlagningarvalds óheimilt.

Í því ákvæði sem hér er lagt til að fellt verði brott er skattlagningarvaldið framselt til stéttarfélags sem getur breytt gjaldi sem starfsmanni er skylt að inna af hendi fyrirvaralaust án þess að hann fái rönd við reist, hann jú er ekki í félaginu. Þar með er búið að framselja skattlagningarvaldið til einhvers félags úti í bæ, sem getur hækkað gjaldið nánast ótæpilega. Þó það sé kannski frekar ólíklegt, þá gæti þetta gjald farið yfir 50% af tekjum án þess að starfsmaðurinn gæti neitt við því gert. Þannig hefur skattlagningarvaldið verið framselt til stéttarfélagsins og það er andstætt stjórnarskránni.

Herra forseti. Undanfarið höfum við rætt ansi mikið um brot á stjórnarskránni, meint brot á stjórnarskánni hafa sumir sagt, og hér er komið kjörið tækifæri fyrir þá sem eru uggandi um að stjórnarskráin sé brotin að ljá þessu máli fylgi sitt og greiða því atkvæði að þessi grein, sem á tvennan máta brýtur ákvæði stjórnarskrárinnar að mínu mati og ég hef fært rök fyrir því, verði afnumin. Í fyrsta lagi brýtur hún, eins og ég gat um, ákvæði stjórnarskrárinnar um félagafrelsi, þar sem hún skyldar menn óbeint þó til að vera félagar í stéttarfélagi. Og í öðru lagi er hún framsal á skattlagningarvaldi, sem ekki er heimilt samkvæmt stjórnarskránni. Ekki er heimilt að leggja á skatta nema með lögum og alls ekki má framselja skattlagningarvaldið til þriðja aðila sem ekki er einu sinni í tengslum við ríkið.

Herra forseti. Það eru nokkur slík gjöld í gangi og nægir þar að nefna t.d. iðnaðargjald sem rennur til Félags íslenskra iðnrekenda og öll iðnfyrirtæki í landinu eru skyldug til að greiða, hvort sem þau eru félagar í þeim samtökum eða ekki. Það væri með sömu rökum og með sömu hugsun ekki skynsamlegt fyrir slík fyrirtæki að vera ekki félagi í Félagi íslenskra iðnrekenda. Það er því í reynd þvingun til aðildar að þeim samtökum.

Búvörugjaldið rennur einnig til Búnaðarsambands Íslands án þess að bændur séu félagar þar eða í reynd er þetta skylda til að vera félagar. Sama á við um ýmis önnur gjöld, t.d. í sjávarútvegi.

En það er eitt gjald sem menn hafa lítið rætt um og það er skylda manna til að vera í sjúkrasjóði, herra forseti.

Í 6. gr. laga nr. 55/1980 segir svo, með leyfi herra forseta: ,,Öllum atvinnurekendum er skylt að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni, og samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina.``

Herra forseti. Hvað stendur þarna? Að einhverjir aðilar úti í bæ, samtök launþega og samtök atvinnurekenda geta samið um það að félagi sem ekki er í þessum samtökum og vill ekki vera í þessum samtökum beri að greiða sjúkrasjóðsgjald sem þessir aðilar ákveða upphæðina á. Ef eitthvað er framsal á skattlagningarvaldi þá er það þetta, herra forseti. Hér er yfirleitt um að ræða yfir 1% af launum allra landsmanna. Þetta er tíundi partur af því sem rennur í lífeyrissjóðina og í þessum sjóðum eru milljarðar geymdir. Þeir sem greiða þessa milljarða í sjúkrasjóði hafa ekki endilega áhrif á stjórnun sjúkrasjóðanna eða hvort þeir greiði gjaldið eða ekki. Þeim ber að greiða gjaldið samkvæmt lögum. Þetta er atriði sem þarf að skoða líka, herra forseti, á sama hátt og það gjald sem við hér erum að ræða um.

Herra forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að málinu verði vísað til umfjöllunar í hv. efh.- og viðskn. og til 2. umr.