Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 17:40:36 (4785)

2001-02-19 17:40:36# 126. lþ. 72.10 fundur 209. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[17:40]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að mér væri í nöp við stéttarfélög. Það er ekki rétt. Mér er í nöp við hin stofnanakenndu fyrirbæri sem kölluð eru stéttarfélög á Íslandi, sem fá iðgjöld sín samkvæmt lögum, nánast eins og skatt og þurfa ekkert fyrir því að hafa. Hafa aðallega áhuga á setum í stjórnum lífeyrissjóða og í stjórnum fyrirtækja sem lífeyrissjóðirnir eiga. Ég er aðallega á móti því að menn fái greiðslur sjálfvirkt eins og hér er sérstaklega tekist á um. Samkvæmt lögum ber opinberum starfsmönnum að borga í sitt stéttarfélag hvort sem þeir eru félagar eða ekki. Peningurinn kemur inn, skatturinn kemur inn. Þetta eru orðnar algjörar stofnanir eins og öll önnur starfsemi sem fær tekjur á silfurfati og þarf ekki fyrir því að hafa.

Stéttarfélögin gegna geysimiklu hlutverki, sérstaklega ef þau þurfa eitthvað fyrir því að hafa, sérstaklega ef þau þurfa að sýna launþegunum að þau séu nauðsynleg, að stéttarfélögin séu nauðsynleg fyrir launþegann. Þau eru það að mínu mati. En þá má iðgjaldið ekki koma inn eins og skattur. Þá þurfa menn að hafa fyrir því. Ég er á móti þessari brotalöm ásamt því feiknarlega valdi sem stéttarfélögin hafa yfir meginhluta fjármagns á Íslandi. Auðvalds á Íslandi sem eru lífeyrissjóðirnir með nærri 600 milljarða í sjóði. Fé sem kemur frá launþegum sem launþegarnir hafa ekkert með að gera en þessir háu herrar í stéttarfélögunum voma yfir í krafti félagsgjalda sem eru eins og skattur.