Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 17:44:59 (4788)

2001-02-19 17:44:59# 126. lþ. 72.10 fundur 209. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[17:44]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. þykja þetta hálfþreytuleg viðbrögð af minni hálfu. Já, ég neita því ekki að mér finnst hálfdapurlegt að hlusta á þennan málflutning. Hann höfum við heyrt frá Thatcher áður og við höfum heyrt hann frá Bandaríkjunum þar sem menn hafa talað um frelsi fólksins til að velja hvort það standi innan eða utan verkalýðsfélaga.

Í raun eru menn að fjalla um hvort atvinnurekandinn eigi að hafa þetta vald á hendi, að úthýsa fólki úr verkalýðsfélögunum. Sannast sagna, herra forseti, held ég þrátt fyrir allt að okkur miði það fram á veginn að þessi málflutningur thatcherismans og reaganismans sé að verða tímaskekkja. Ég held að þetta sé að verða tímaskekkja í samfélaginu. Ég held að það sé almennt viðurkennt að lýðræðisleg hreyfing launafólks sé til góðs. Hún vinnur uppbyggilegt starf og er lýðræðinu í landinu gagnleg. Hún stuðlar að fjölþátta samfélagi, kröftugu fjölþátta samfélagi. Ég held að það sjái flestir nema hv. þm. Pétur H. Blöndal og aðrir talsmenn Sjálfstfl., hugsanlega í sérdeild frjálshyggjunnar, að málflutningur af þessu tagi er tímaskekkja. Auðvitað er hann dapurlegur þrátt fyrir það.