Sjálfbær atvinnustefna

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 18:17:11 (4793)

2001-02-19 18:17:11# 126. lþ. 72.12 fundur 253. mál: #A sjálfbær atvinnustefna# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[18:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að fullvissa hv. þm. um að það að mér varð á að vitna í landbrh. var ekki ætlað sem annað en algjörlega græskulaus gamansemi af minni hálfu. Ég rakst á það í blaðaviðtali að hæstv. ráðherra tók svo einstaklega skemmtilega til orða að hann hefði stigið sinn pólitíska feril skref fyrir skref, hægt og örugglega. Ég talaði hér um að allar ferðir væru farnar í fleiri skerfum en einu og hæfust á einhverju tilteknu skrefi.

Mér finnst að við Íslendingar séum fullstutt á veg komnir í vegferð okkar inn í nútímann í umhverfismálum, þá sérstaklega í metnaði okkar til að vera sjálfum okkur samkvæm í þeim efnum. Mér finnst skorta á samkvæmni og samræmingu í framgöngu okkar þegar maður lítur yfir sviðið sem slíkt. Þar skortir á. Það vantar tengingu inn í einstakar atvinnugreinar. Það vantar meiri tengingu stjórnvalda á mismunandi stjórnsýslustigum, við það sem sveitarfélögin eru að gera annars vegar og ríkið hins vegar. Ég tel að það væri mjög skynsamlegt, enda er það í raun sú nálgun sem víðast hvar hefur verið valin, að vinna samkvæmt einhverjum samþykktum markmiðum og áætlunum.

Við leggjum hér til gerð rammaáætlunar um mótun sjálfbærrar atvinnustefnu sem grundvallar fyrir sjálfbæra þróun í samfélagi okkar á komandi árum. Sambærilegar rammaáætlanir eru vel þekktar í nágrannalöndunum. Sú er líka hugsunin í alþjóðlega samstarfinu, samanber Staðardagskrá 21 og Dagskrá 21. Þetta eru í raun markmiðslýsingar og rammaáætlanir á borð við þær sem við viljum að stjórnvöld hér taki á dagskrá.

Varðandi beitarstjórnun í landbúnaði, þá gæti ég rætt heilt kvöld við hv. þm. um tilraunir mínar til að fá m.a. Bændasamtökin og fleiri aðila með mér í það að reyna að stýra framleiðslu búvara með tilliti til landgæða. (Forseti hringir.) Það reyndist talsverð brekka svo ekki sé nú fastar að orði kveðið.