Stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 18:26:28 (4797)

2001-02-19 18:26:28# 126. lþ. 72.13 fundur 262. mál: #A stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri# þál., Flm. ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[18:26]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 289. Það er 262. mál um stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri. Flutningsmenn auk mín eru sunnlensku þingmennirnir Margrét Frímannsdóttir, Drífa Hjartardóttir og Árni Johnsen og kann ég þeim mínar bestu þakkir fyrir.

Þáltill. er eftirfarandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta semja frumvarp til laga um stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri í samstarfi við sveitarfélagið Árborg`` --- sem áður var Sandvíkurhreppur, Selfossbær, Eyrarbakkahreppur og Stokkseyrarhreppur --- ,,héraðsnefnd Árnessýslu og Byggðasafn Árnesinga og leggja fram í upphafi næsta löggjafarþings.`` Það er 127. löggjafarþings.

Vagga tónlistarlífs á Íslandi í þeirri mynd sem nú þekkist er í þorpunum við Suðurströndina, þ.e. Stokkseyri og Eyrarbakka, en þessi staðreynd er því miður að gleymast. Upphaf þessa má rekja til Hússins á Eyrarbakka, sem nú er nýtt undir starfsemi Byggðasafns Árnesinga, en þar er safnstjóri Lýður Pálsson sem lagt hefur þessum tillögum lið og þakka ég honum og öðrum áhugamönnum sem hafa hvatt mig til dáða í þessum efnum.

Íbúar Hússins á Eyrarbakka höfðu gjarnan mikil áhrif á menningarlíf í héraði, einkum tíma Lefolii-verslunar. Á tímabili mátti segja að á Eyrarbakka væru meiri umsvif, menningarleg og viðskiptaleg, en í höfuðborginni sjálfri. Árið 1847 fluttu sæmdarhjónin Guðmundur Thorgrímsen og Sylvia Níelsdóttir Thorgrímsen að Húsinu sem faktorshjón. Það var ekki einungis að verslun blómstraði á þeirra tímum heldur breiddu þau út mikla menningu um héraðið og reyndar landið allt.

Á þessum tíma var m.a. stofnaður Barnaskólinn á Eyrarbakka en hann telst elsti starfandi barnaskóli landsins, frá árinu 1852. Aðalhvatamaður að stofnun þess skóla var séra Páll Ingimarsson í Gaulverjabæ, en faktorinn, Guðmundur Thorgrímsen, var einn af hvatamönnum og studdi þetta framtak með peningum og reyndar með því að afla hugmyndinni fylgis almennings. Hugmyndin var dönsk og þetta var í raun og veru fyrirmynd að vakningu til alþýðufræðslu á Íslandi.

Því hefur verið haldið fram að evrópsk tónlist hafi flutt á Bakkann með Sylviu árið 1847. Sylvia kenndi á píanó, m.a. dætrum sínum, en það hljóðfæri þótti mjög framandlegt á Íslandi í þá daga. Píanóið kom í Húsið á Eyrarbakka árið 1871 og er einn af kostagripum safnsins í dag. Þetta píanó átti eftir að verða örlagavaldur í íslensku tónlistar- og menningarlífi. Nefna má að Páll Ísólfsson, ungur að aldri, heyrði fyrst í þessu píanói og varð í senn undrandi og glaður yfir þessum töfratónum, eins og segir í endurminningum hans. Hugsið ykkur að það eru einungis 130 ár síðan þetta var.

[18:30]

Á þessum tíma var mikið sungið og spilað í Húsinu, m.a. á gítar, orgel og harmóniku og langspil var reyndar þekkt hljóðfæri á Íslandi á þeim tíma. Í Húsinu voru kynnt verk eftir Mozart, Brahms, Schubert og Bach en verk þessara snillinga höfðu væntanlega ekki heyrst fyrr á Íslandi. Einnig kom norska tónskáldið Johan Svendsen í heimsókn, það mun hafa verið árið 1867 og er m.a. talið að hann hafi samið og raddsett lagið Hrafninn flýgur um aftaninn sem mörgum er að góðu kunnugt. Hann mun hafa samið þetta lag í Húsinu á Eyrarbakka.

Hinn dáði listamaður Ásgrímur Jónsson var ungur að aldri vikapiltur í Húsinu og í æviminningum sínum lýsir hann þessari tónlistarmenningu og á hvern hátt Sylvia Thorgrímsen og dætur hennar höfðu áhrif á tónlistarlíf á staðnum. Í endurminningum sínum segir Ásgrímur frá því að það þótti í raun og veru mikill heiður að fá að vera vikapiltur í Húsinu og einnig að sóst var eftir því að komast í vist í þetta hús.

Hinn mikli menningarfrömuður sem margir þekkja frá fornu fari, Ragnar heitinn Jónsson í Smára, var einmitt upprunninn úr þessum jarðvegi.

Upp úr þessari tónlistarmenningu spruttu margir dáðir tónlistarmenn eins og Sigfús Einarsson, Haraldur Sigurðsson frá Kaldaðarnesi, Friðrik Bjarnason, Hallgrímur Helgason og frumkvöðlarnir frá Seli, þeir Bjarni, Jón, Ísólfur og Gísli Pálssynir. Enn fremur má nefna bræður þeirra Júníus og Pálmar Pálssyni. Áhrifa frá þessu góða fólki og fjölskyldum þeirra gætir enn á tónlistarlíf á Íslandi. Sigurður Ísólfsson var þekktur hljóðfæraleikari af þessum rótum. Flestir núlifandi Íslendingar þekkja t.d. Þuríði Pálsdóttur söngkonu, svo dæmi séu nefnd.

Í tónlistarlífinu í dag eigum við einnig nokkra tónlistarmenn sem rætur sínar eiga að rekja á þessar slóðir. Má þar nefna Ragnhildi Gísladóttur, sem sungið hefur með Stuðmönnum og fleiri hljómsveitum, og Móeiði Júníusdóttur sem á rætur að rekja til Stokkseyrar. Af núlifandi tónskáldum á Stokkseyri nefni ég Pálmar Þ. Eyjólfsson.

Tónlistarmenningu hefur ekki verið sinnt sem skyldi og fremur lítið hefur verið skráð og fjallað um starf íslenskra tónlistarmanna. Þá er hvergi hér á landi starfrækt tónlistarsafn þar sem finna mætti á einum stað muni eða ritaðan fróðleik um þróun og sögu tónlistar. Eyrarbakki og Stokkseyri eru steinsnar frá mesta þéttbýli landsins og með væntanlegum Suðurstrandarvegi yrði safn þetta ágætlega í sveit sett í nýjum menningarhring og hentar vel jafnt skólanemendum sem almennum borgurum en ég sé fyrir mér að fólk, ungt fólk og reyndar fólk í tónlistarnámi gæti komið í safnið til að kynna sér tónlistarmenninguna. Með stofnun og starfrækslu þessa safns yrði tónlistinni í fyrsta sinn gert jafnhátt undir höfði og ýmsum menningargreinum þjóðarinnar og minningu þeirra sem ruddu brautina reistur verulegur minnisvarði.

Æskilegt væri að stofnun og rekstur tónlistarsafnsins væri sameiginlegt verkefni ríkisins, sveitarfélagsins Árborgar, héraðsnefndar Árnessýslu og Byggðasafns Árnesinga. Því væri nauðsynlegt að þessir aðilar hefðu samstarf um verkið þegar í upphafi ásamt áhugahópi um þetta málefni en fjölmargir aðilar hafa sýnt málinu áhuga. Ég tel mjög mikilvægt að skapa áhugamannahóp um þetta því að í raun og veru getur verkefni sem þetta aldrei orðið að veruleika nema með kröftugu og dugmiklu fólki sem stæði að baki því.

Menningartengd ferðaþjónusta verður æ vinsælli og hluti af afþreyingu nútímans. Heimsóknir ungs fólks, eins og ég sagði áðan, í tónlistarnámi getur tengst safni sem þessu. Ég vil taka fram að þessi hugmynd um safn er ekki sett fram í samkeppni við önnur söfn eins og tónlistarsafn sem er á Siglufirði eða popptónlistarsöfn sem eru m.a. í Keflavík eða Suðurnesjabæ og á Bíldudal en þar hafa tónlistarmennirnir Jón Kr. Ólafsson á Bíldudal og Rúnar Júlíusson í Keflavík af miklum dugnaði og harðfylgi sett upp merkileg söfn til að minna á dægurtónlist eða popptónlist.

Herra forseti. Ég vænti þess að tillagan fái brautargengi því að eins og ég sagði í máli mínu áðan ber okkur að minnast þessara frumkvöðla sem í raun og veru ruddu þessa tónlistarbraut. Hér er um mjög merkilega sögu og verðmæti að ræða sem ekki mega gleymast og þess vegna vona ég, herra forseti, að tillagan fái gott brautargengi.