Stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 19:02:15 (4802)

2001-02-19 19:02:15# 126. lþ. 72.13 fundur 262. mál: #A stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri# þál., Flm. ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[19:02]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka framúrskarandi undirtektir við þessa þáltill. og reyndar fróðlega og skemmtilega umræðu sem átt hefur sér stað. Í henni er samhljómur sem verður vonandi til þess að tillagan eigi greiða leið í þinginu og úr þessari hugmynd verði safn. Við getum auðvitað rifjað upp að tónlist á Íslandi á sér eldri sögu. Það var tónlist líka í Skálholti á sínum tíma og á Hólum en hún var svolítið öðruvísi en það sem við höfum talað um hér í dag. Ég sé líka fyrir mér ýmislegt af því sem við höfum komið inn á varðandi lifandi safn. Að sjálfsögðu þarf að vera hægt að halda tónleika í safni sem þessu og það mundi glæða safnið lífi. Það þarf að vera aðstaða fyrir tónlistarmenn þar sem þeir geta samið tónlist, æft sig og dvalið í umhverfi sem er skapandi fyrir þá. Það þarf líka að vera hægt að hlusta á einstök verk og jafnvel að hlusta á einstök hljóðfæri. Það er hægt með nútímatækni en við vorum áðan einmitt að tala um að taka ákveðin skref í málinu hér á undan. Það á auðvitað við um þetta mál líka. Við getum gleymt okkur í framtíðardraumum en aðalmálið er að reyna að hrinda þessu í framkvæmd.

Ég tek undir það að hæglega má samþætta þessa þáltill. ágætri þáltill. hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar. Ég er alveg viss um að við getum gengið í takt í þeim efnum. Það er gaman að velta fyrir sér, eins og þingmenn gerðu áðan, markaðssetningu ákveðinna staða á landinu og því hvernig menningin getur í raun verið auðlind. Það gleymist oft. Við erum oft að tala um atvinnugreinar, landbúnað, sjávarútveg og iðnað, eins og það sé hið eina sem til er. Auðvitað eigum við að getað nýtt okkur menninguna líka og menningartengd ferðaþjónusta er að verða æ vinsælli hér á landi og reyndar einnig erlendis.

Ég hlustaði á skemmtilegan mann á Eyrarbakka fyrir nokkrum árum, ákaflega bjartsýnan, sem talaði um að markaðssetja brimið. Hann heitir Ási Markús og rekur gistihús á Eyrarbakka sem ég held að gangi bara þokkalega vel. Til hans koma gestir bara til að hlusta á brimið. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Drífu Hjartardóttur má gjarnan sækja tónlist í brimið og þess vegna ljóðlist og ýmislegt fleira. Ég held að það gæti verið ágætt fyrir okkur þingmenn sem getum stundum orðið pínulítið pirruð hvert á öðru þegar við hlustum á þá flóðmælsku sem kemur úr þessum ræðustól. Það gæti verið gott að skreppa niður á Bakka og hlusta svolítið á brimið til að slaka á.

Það er líka gaman að velta því fyrir sér að ungt fólk hefur stofnað lítið kaffihús á Eyrarbakka sem heitir Kaffi Lefolii, það er að vísu lokað í augnablikinu, en það er sama. Ýmislegt í þessum dúr getur hjálpað svona starfsemi. Það getur verið erfitt að reka starfsemi eins og lítið veitingahús. Það er annað veitingahús á Stokkseyri sem heitir Við ströndina, ef ég man rétt. Þangað kemur fólk gjarnan til þess að borða sjávarrétti og þess háttar. Fleira mætti auðvitað nefna.

Ég ítreka að það er nauðsynlegt að ná samstöðu um mál sem þetta. Við þurfum að virkja áhugahópa og fá styrk frá stjórnvöldum. Við þurfum að fá styrk frá bæjarstjórn Árborgar, héraðsnefnd og Byggðasafni Árnesinga. Þá væri hægt að hrinda þessari ágætu hugmynd í framkvæmd.

Mér fannst ansi gaman að heyra ræðu hv. þm. Katrínar Fjeldsted áðan þegar hún var að velta fyrir sér tónlistargeninu. Hver veit nema Íslensk erfðagreining geti verið með lítinn bás í þessu safni þar sem tónlistargenið yrði sýnt.