Tónminjasafn

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 19:08:58 (4805)

2001-02-19 19:08:58# 126. lþ. 72.14 fundur 267. mál: #A tónminjasafn# þál., Flm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[19:08]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson):

Herra forseti. Hér höfum við hv. þm. rætt tónminjasafn og stofnun þess og beint sjónum okkur sérstaklega til Stokkseyrar og þeirrar þáltill. sem við höfum rætt síðustu stundarfjórðungana.

Tillagan sem ég legg hér fram var lögð fram í þinginu í fyrra en fyrir henni var ekki mælt. Hún er því lögð fram hér að nýju. Ég ítreka enn og aftur að best færi á því að vinna þessi tvö mál saman. Ég ætla ekki að halda langa ræðu, enda hefur margt gott verið sagt almenns eðlis um rekstur og stofnun tónminjasafns, en ætla þó aðeins að minnast á örfá atriði.

Safnið sem þáltill. mín gerir ráð fyrir er umfangsmeira en það sem rætt var hér áðan. Ekki hefur verið bent á neinn sérstakan stað fyrir safnið en tillagan gerir ráð fyrir að hlutverk þess verði á borð við það sem við ætlum Þjóðminjasafni á ýmsum sviðum. Ég vil, með leyfi forseta, lesa fyrstu málsgreinina í grg. með þáltill., en þar segir:

,,Tónminjasafn aflar, varðveitir og sýnir hvers kyns gömul og ný verðmæti sem tengjast tónlist á Íslandi, þar á meðal hljóðfæri, hljómtæki, hljóðupptökur, nótur, bækur, myndir, heimildir um tónlistarsögu og frásagnir af tónlistarflutningi, tónlistarmönnum, tónlistarviðburðum og hvers kyns gripum sem tengjast samningu og flutningi tónlistar.``

Komið hefur fram að í fornum íslenskum handritum er mun meira af tónlist en menn gerðu sér grein fyrir áður. Rannsóknir manna á handritum okkar hafa fyrst og fremst beinst að sögunni og þeim menningararfi sem við þekkjum svo vel, Íslendingasögum, kvæðum og ljóðum. En þegar betur er að gáð hefur, m.a. fyrir frábært starf Kára Bjarnasonar og fleiri góðra manna, komið í ljós að handritin okkar eru mjög rík af tónlist og nótum. Ekki er það aðeins skráð, heldur fallega skráð og litríkt í handritunum okkar. Þessar rannsóknir hafa farið fram hér í Reykjavík, en að mörgu leyti hafa þær fengið að blómstra sem hluti af tónlistarlífinu í Skálholti um þessar mundir.

Enda þótt við séum öll ánægð með tónlistararf okkar Íslendinga --- við höfum hér keppst um að vitna til þess --- þá skulum við minnast þess að á 19. öldinni og framan af 20. öldinni stóð tónlistarlíf á Íslandi langt að baki því sem var í öðrum löndum. Það gefur auga leið. Aðrar menningaþjóðir, svo sem í Mið-Evrópu, hafa aldalanga hefð og íslensku tónlistarmennirnir áttu mjög langa götu ógengna til þess að ná á svipaðar slóðir. Hins vegar varð á þessu bylting á síðasta hluta 20. aldar, þar sem Íslendingar tóku tónlistina og gerðu bókstaflega að fleygum fugli í sinni menningu. Við höfum náð að draga fram menningarþætti sem svo sannarlega voru ekki mjög ríkir í okkar húsum.

Ég ætla ekki að rekja hér það sem allir vita, hversu mikið tónlist er stunduð af ungu fólki á Íslandi og hversu langt íslenskir tónlistarmenn hafa náð, ekki aðeins hér á landi heldur erlendis líka. Við skulum líka minnast þess að tónlist er atvinnuvegur sem er tilvalinn til útflutnings og hefur margt verið gert á síðustu árum til að styðja slíkt.

Eitt vil ég nefna sem ýtir undir það að við tökum rösklega og fast á þessum hlutum, hvort sem við erum að tala um tónminjasafn á Stokkseyri eða annars staðar. Við skulum minnast þess að enn er lifandi það fólk sem var brautryðjendur eða man brautryðjendur á sviði tónlistar í landinu. Þetta fólk verður að sjálfsögðu ekki eilíft í landinu frekar en við hin. Því er afar mikilvægt að menn hefjist handa við að safna öllu því sem þetta fólk getur sagt frá. Enn eru til munir sem hætt er við að fari forgörðum ef þeir eru ekki fluttir saman á einn stað.

Einstaklingar hafa verið að safna þessum hlutum saman. Við getum vitnað til Siglufjarðar, safns sem þar hefur verið komið á legg. Hér hefur verið minnst á Poppminjasafnið. Við getum líka talað um einstaklinga á borð við Sigurjón Samúelsson á Hrafnabjörgum við Djúp og fleiri mætti nefna. Þannig er vísir að slíkum söfnum og áhugi á þessu um allt land.

[19:15]

Sú þáltill. sem hér er mælt fyrir gerir ekki ráð fyrir því að yfirtaka þessi söfn eða drepa niður þann áhuga sem einstaklingar sýna. Þvert á móti að styðja við það. En ég held að við höfum svo mikinn arf og úr svo miklu að moða að við getum sett upp sjálfstætt safn án þess að trufla nokkuð það sem verið er að gera í einstökum landshlutum, hvort sem það er á Stokkseyri eða annars staðar, eða það sem einstaklingar hafa verið að gera.

Ég held að margir aðilar séu tilbúnir til þess að koma til móts við hugmynd af þessu tagi. Ég vil nefna fyrirtæki, félög, skóla, kóra, hljómsveitir, leikfélög og einstaklinga. Eins og sagt hefur verið hér fyrr í dag er tónlistin og allt sem henni fylgir, bæði í tónum, munum og myndum, alveg tilvalin til þess að draga að ferðamenn, ungt fólk og aðra sem þá sem njóta vilja.

Við þingmenn höfum í dag vitnað í það að við höfum séð söfn af þessu tagi þar sem við komum að básum þar sem hljóðfæri og búningar eru tengdir við hljóðupptökur og hægt er að fara inn í þann heim sem vitnað er til með þeim munum sem fram eru settir. Það er fátt annað sem getur einmitt dregið betur athygli ferðamanna og almennings til sín en einmitt safn af þessu tagi. Ég hef áður minnst á að þetta þarf að vera lifandi safn en ekki dautt og laða að tónlistarmenn með þeim hætti sem rætt var um fyrr í dag.

Ég vil einnig nefna einn afar mikilvægan þátt í þessu, en það er Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið hefur að sumu leyti gegnt einmitt því varðveislu- og menningarhlutverki sem við höfum verið að tala um hér í dag. Og það er ekki hægt að ætlast til þess að Ríkisútvarpið geri stöðugt slíkt. Við erum að tala um breytingar á Ríkisútvarpinu. Safn af þessu tagi á að einhverju leyti að taka við því mikla og merka starfi sem Ríkisútvarpið hefur unnið á þessu sviði eða a.m.k. að eiga mjög náið samstarf.

Við getum einnig talað um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Að sjálfsögðu á að laða hana inn í þetta verkefni. Ég held að við getum líka náð til einstakra fyrirtækja á sviði tónlistar. Ég vil nefna hið merka framlag Fálkans hf. og þeirra sem að því fyrirtæki stóðu, Ólafs Magnússonar, Haraldar Ólafssonar og fleiri, við fyrstu hljómupptökur á Íslandi. Þarna er fjársjóður sem ekki má glatast. Fyrirtækin sem núna eru í rekstri og eru að gefa út plötur og diska eiga líka öll mjög merka hluti. Öllu þessu þarf að sinna.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera mál mitt lengra. Mér finnst heldur miður að hér er að sumu leyti verið að tvítaka hluti. Ég held að aðalatriðið sé að komið hafa fram tvær þáltill. sem sýna með þeim málflutningi sem hér hefur verið í dag að hérna er tilvalið tækifæri, hérna eigum við að taka á, vegna þess að þetta eru hlutir sem geta hlaupið frá okkur ef við gætum ekki að okkur og ríkisvaldið, sveitarfélögin og fyrirtæki, ásamt áhugamannafélögum eiga að koma saman í einn hóp. Við skulum ekki dreifa kröftum okkar með því að takast á um það hvar þetta á að vera. Aðalatriðið er að vinna gott verk með öllum þeim sem sýna þessu máli áhuga og vænti ég þess að þær tvær tillögur sem mælt hefur verið fyrir í dag fái farsæla meðferð hér í þinginu.