Tónminjasafn

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 19:24:01 (4807)

2001-02-19 19:24:01# 126. lþ. 72.14 fundur 267. mál: #A tónminjasafn# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[19:24]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil taka skýrt fram, eins og ég sagði reyndar í ræðu minni áðan um þáltill. um minjasafn á Stokkseyri, að hæglega er hægt að samþætta þessar tvær þáltill. Svo óheppilega vildi til, þrátt fyrir gott samkomulag okkar félaga að við vissum ekki hvor af öðrum, svona getur þetta verið. En enn og aftur, það er samhljómur í því sem við erum að segja og skiptir miklu máli. Það er mjög nauðsynlegt að varðveita tónlistararfinn og sýna því fólki sem ruddi brautina tilhlýðilega virðingu.

Við sjáum að íþróttum er gert mjög hátt undir höfði á Íslandi og er ég mjög sáttur við það og er allt gott um það að segja. Ef við berum íþróttir saman við tónlistina þá er tónlistinni ekki gert eins hátt undir höfði og íþróttum, þó að ég vilji kannski ekki vera eins róttækur og --- ég heyrði ágæta ræðu hjá mjög góðum íslenskum píanista, sem er skólastjóri Tónlistarskólans í Garðabæ og heitir Agnes Löve. Hún vildi gjarnan koma á samkeppni kirkjukóra og að kirkjukórarnir hefðu hugsanlega stuðningsmenn. Síðan yrði þessu sjónvarpað til að hvetja menn til dáða í söng. Þetta er snjöll hugmynd sem hugsanlega einhverjir vildu framkvæma.

Eins og ég sagði áðan er með stofnun og starfrækslu tónminjasafns tónlistinni kannski í fyrsta sinn gert jafnhátt undir höfði og ýmsum öðrum menningargreinum þjóðarinnar og minningu þeirra er ruddu brautina reistur varanlegur og verðugur minnisvarði.

Ég hvet til þess að við setjumst niður, flutningsmenn þessara tveggja tillagna, og vonast ég til þess að tillöguflutningurinn verði til þess að hrinda í framkvæmd tillögum okkar um tónminjasafn og helst vildi ég sjá það á Stokkseyri.