Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 13:35:08 (4809)

2001-02-20 13:35:08# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[13:35]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég vil geta þess í uppphafi að ég hef óskað eftir því að hæstv. dómsmrh. væri viðstaddur umræðuna. Mér var sagt að svo gæti orðið. Hefur forseti einhverja hugmynd um ferðir hæstv. ráðherra.?

(Forseti (GuðjG): Forseti hefur ekki hugmynd um ferðir hæstv. ráðherra. Hann er ekki í húsinu en það er sjálfsagt að senda honum skilaboð um að nærveru ráðherra sé óskað.)

Ég hafði óskað eftir því, herra forseti, og vildi gjarnan að leitað yrði eftir því að hæstv. ráðherra væri hér viðstaddur. Ég hafði reyndar líka óskað eftir því að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur umræðuna en fékk strax þær skýringar að hann væri bundinn við önnur störf, a.m.k. eitthvað fram eftir degi.

(Forseti (GuðjG): Forseti vill geta þess að hæstv. dómsmrh. er kominn í húsið.)

Takk fyrir, herra forseti.

Eitt af fyrstu málunum sem lagt var fram á haustþingi ársins 2000 var það mál sem hér er mælt fyrir, frv. til laga um lagaráð á þskj. 76. Flutningsmenn eru auk þeirrar sem hér stendur hv. þm. Samfylkingarinnar Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson. Málið hefur ekki komið til umræðu fyrr en nú þó það hafi verið lagt fram á fyrstu dögum þingsins en segja má að atburðir síðustu vikna í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins hafi enn ýtt undir nauðsyn þess að tekið væri til skoðunar á Alþingi hvort ekki væri rétt að koma á fót lagaráði á borð við það sem hér er lagt til. Þeir atburðir voru þó ekki í brennidepli þegar frv. var samið enda var það gert tveimur mánuðum áður en dómur Hæstaréttar var kveðinn upp. Sá dómur er þó enn til áréttingar um mikilvægi þess máls sem hér liggur fyrir.

Þetta mál er eitt fjölmargra sem Samfylkingin hefur lagt fram í því skyni að stuðla að bættu lýðræði og aukinni stjórnfestu í meðferð valdahafa á valdi sínu. Strax á fyrstu dögum þingsins kynnti Samfylkingin fyrir fjölmiðlum fjölda mála sem eru liður í því að efla lýðræðið. Sum þeirra eru endurflutt og hafa jafnvel verið flutt nokkrum sinnum áður, en önnur eru ný eins og það mál sem hér er til umræðu.

Frv. er að nokkru leyti byggt á hugmyndum sem fram koma í skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda sem lögð var fyrir Alþingi á síðasta ári að beiðni hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri þingmanna Samfylkingarinnar.

Skýrsla þessi var samin af nefnd sem Páll Hreinsson núverandi prófessor veitti forstöðu og felur í sér ítarlega greinargerð um starfsskilyrði stjórnvalda og hugmyndir um hvar mætti gera bragarbót í tengslum við meðferð valdsins í íslenskri stjórnsýslu.

Í skýrslu þessari kemur fram ábending um að mikilvægt sé að taka til athugunar hvort ekki sé ástæða til að koma á fót lagaráði eða lagaskrifstofu er hafi það hlutverk að fara skipulega yfir lagafrumvörp áður en þau eru lögð fram, a.m.k. ef vafi leikur á um hvort þau standist stjórnarskrá, alþjóðasamninga eða hvort aðrir hnökrar kynnu að vera á löggjöfinni.

Í skýrslu nefndarinnar um starfsskilyrði stjórnvalda segir, með leyfi forseta:

,,Þar sem ekki er farið bæði ítarlega og skipulega yfir öll lagafrumvörp og kannað hvort lagatæknilegir ágallar eru á þeim áður en þau eru lögð fyrir Alþingi og samþykkt sem lög þarf ekki að koma á óvart að miklu fleiri hnökrar eru á íslenskri löggjöf en á löggjöf annars staðar á Norðurlöndum. Umboðsmaður Alþingis sá t.d. tilefni til að vekja athygli Alþingis á ,,meinbugum`` á lögum í 45 af fyrstu 2.000 málunum sem hann fékk til afgreiðslu, sbr. SUA 1997:34. Til samanburðar skal þess getið að þetta eru fleiri mál en umboðsmaður danska þingsins hefur fengist við og snerta ,,meinbugi`` á lögum allt frá því að það embætti var stofnað árið 1954 og hafa þar að meðaltali komið u.þ.b. 3.000 mál til afgreiðslu árlega síðastliðinn áratug. Sem dæmi um þá hnökra, sem umboðsmaður Alþingis hefur bent á í löggjöf hér á landi, má nefna misræmi eða árekstra á milli lagaákvæða, prentvillur, óskýran texta, að gerður sé að lögum mismunur á milli manna, án þess að til þess standi viðhlítandi rök, og að ákvæði laga séu ekki í samræmi við stjórnarskrá eða þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt alþjóðasáttmálum til verndar mannréttindum.``

Nauðsyn þess að komið verði á fót einhvers konar verkfæri til að stuðla að bættum undirbúningi til löggjafar er forgangsverkefni sem Alþingi þarf að vinda sér í hið fyrsta. Ekki aðeins er það vegna þess hve gölluð löggjöf er slæm fyrir réttarríkið og réttaröryggi borgaranna heldur er það ekki síður mikilvægt fyrir hróður Alþingis að löggjöf sem frá samkundu þessari komi sé vönduð og mjög vel að henni staðið.

Dómur Hæstaréttar í málefni Öryrkjabandalagsins og umræðan í kjölfar hans er nærtækasta dæmið um það hversu slæm áhrif það hefur að lög standast ekki stjórnarskrá. Í því máli var það niðurstaða Hæstaréttar að Alþingi hefði sett lög sem stönguðust á við stjórnarskrána og að um leið hefðu verið brotin mannréttindi á tilteknum hópi borgara. Bréfaskipti forseta Alþingis til forseta Hæstaréttar og svar hans eru enn til vitnis um þau örþrifarað sem gripið er til þegar staðið er frammi fyrir spurningunni um það hvort lög standist stjórnarskrá og eru að mínu mati enn til vitnis um úrræðaleysi Alþingis þegar staðið er frammi fyrir slíkum spurningum.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þessi bréfaskipti frekar en ég hef áður lýst því yfir að ég tel þau með eindæmum og í hæsta máta vafasamt fordæmi sem ég vona að eigi aldrei eftir að endurtaka sig í þeirri mynd.

Eftir dóm Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins hefur umræða þessi mál farið á mikið flug bæði innan sala Alþingis og einnig úti í samfélaginu, í fjölmiðlum og víðar og er það í sjálfu sér af hinu góða. Fjölmiðlar og stjórnmálaflokkar hafa fengið meiri áhuga á málinu en áður og má m.a. sjá það af þeirri dagskrá sem liggur hér frammi í dag, en þar eru a.m.k. nokkur mál sem hafa komið til skjalanna eftir að öryrkjamálið komst í hámæli, en öll þau mál sem til umræðu eru hér í dag snerta að einhverju leyti lýðræðið og það grundvallarskipulag sem við höfum ákveðið að búa við í þeim efnum.

Í Morgunblaðinu hefur farið fram ítarleg umræða sem snertir þessa grundvallarþætti lýðræðisins og laugardaginn 3. febrúar sl. var greinargóð úttekt á því hvernig best sé að auka stjórnarskráreftirlit og ganga úr skugga um að löggjöf standist stjórnarskrá. Í þeirri umfjöllun var spjallað við fjölda lögfræðinga og var það mat þeirra flestra að rétt væri að koma á fót lagaráði er meti stjórnskipulegt gildi laga. Allir viðmælendur Morgunblaðsins þennan dag bentu á þennan möguleika en sumir nefndu þann möguleika að heimilt verði að bera undir Hæstarétt eða sérstaka stjórnlagadeild við réttinn hvort frumvörp eða nýsamþykkt lög samrýmist stjórnarskrá. Allir viðmælendur úr hópi lögfræðinga töldu ekki þörf á að setja á stofn sérstakan stjórnlagadómstól hér á landi en sá möguleiki hefur einnig verið til umræðu að fordæmi nokkurra landa sem hafa slíkt fyrirkomulag.

Ég er sammála því mati að ekki sé rétt að sinna þessu eftirliti með stofnun sérstaks stjórnlagadómstóls. Ástæður þessa eru margar og í mínum huga eru kostir þess fyrirkomulags ótvíræðir að setja á stofn lagaráð innan Alþingis og miða við að áfram hafi dómstólar endanlegt mat um stjórnskipulegt gildi laga. Ég tel að þessir kostir séu ótvíræðir, þ.e. þess fyrirkomulags sem við leggjum til í þessu frv..

Í fyrsta lagi tel ég of viðurhlutamikið og of dýrt að koma á fót heilli stofnun, heilum dómstóli, í okkar litla samfélagi. Regluverk og lagaverk okkar er ekki það flókið að það á að vera hægt með því að vanda vel til löggjafarundirbúnings að koma í veg fyrir flesta þá meinbugi á lögum sem hingað til hafa komið í ljós og í sjálfu sér er ekki ástæða til þess að setja á stofn sérstakan dómstól. Við höfum heldur ekki nægan mannskap, tel ég, til að setja á stofn tvöfalt dómskerfi. Því er fullkomlega eðlilegt að þeir dómstólar sem hér eru fyrir hafi stjórnarskráreftirlitið með höndum. Að mínu mati á það að vera meginmarkmið stjórnvalda og okkar sem setjum hér lög að einfalda stjórnkerfið frekar en gera það flóknara.

Ég vil líka benda á að lagaráðið er fyrirbyggjandi leið. Þá yrði farið yfir frv., þ.e. farið yfir lög á frumvarpsstigi og lagt á það mat innan veggja Alþingis af þessu sérstaka ráði hvort þau standist stjórnarskrá. Þetta yrði ráðgefandi ráð. Endanlegt mat yrði áfram í höndum dómstóla. Þetta er sem sagt fyrirbyggjandi leið.

Það er hlutverk Alþingis að sinna löggjöf og Alþingi á að vanda vel til verka og leggja í það allan sinn metnað að þau frv. sem koma fyrir Alþingi til afgreiðslu séu þannig úr garði gerð að þau standist stjórnarskrá, alþjóðasamninga og á þeim séu að öðru leyti ekki þeir meinbugir sem raunin hefur orðið á í gegnum tíðina í allt of miklum mæli. Ég vil þó ítreka í þessu samhengi það sem ég tek reyndar fram í greinargerð með frv. að miklar endurbætur hafa verið gerðar á þeirri lögfræðiþjónustu sem veitt er í tengslum við Alþingi. Nefndadeildin hefur verið stórlega endurbætt á síðustu árum. Bara á þeim stutta tíma sem ég hef verið hér síðan 1995 hefur verið gerð mikil bragarbót á þessu þannig að Alþingi hefur lagt sitt af mörkum í þessum efnum. En betur má ef duga skal.

Sem rök fyrir því að móta frekar þá leið sem hér er lögð til heldur en stjórnlagadómstólsleiðina má líka benda á að lagahefðin hér er sú að almennir dómstólar meti stjórnskipulegt gildi laga og það eru um leið rök fyrir því að þetta verði gert þannig áfram en að lögð sé meiri áhersla á vandaðan undirbúning af hálfu Alþingis. Það má með öðrum orðum koma við endurbótum innan þess kerfis sem við höfum með stofnun lagaráðs.

[13:45]

Ég tel ekki síður mikilvæg þau rök að nauðsynlegt sé að auka vægi Alþingis í stjórnskipuninni. Margir meta það svo og það hefur verið mjög til umræðu í þjóðfélaginu undanfarin ár að Alþingi og vægi löggjfarvaldsins sé á undanhaldi fyrir ofurvægi framkvæmdarvaldsins. Með tilliti til þeirra grundvallarhugmynda sem við byggjum á varðandi þrískiptingu ríkisvaldsins er mjög mikilvægt að Alþingi verði eflt og mikilvægasti liðurinn í því er að mínu mati sá að efla löggjafarhlutverk Alþingis, að Alþingi hafi yfirumsjón með því hvernig frv. fara í gegnum þingið, koma hér til afgreiðslu og verða síðan að lögum, þótt vissulega komi alltaf áfram stór hluti frv. frá ríkisstjórninni. Þær skrifstofur sem þar starfa á vegum einstakra ráðherra eru annars eðlis en ráðið sem hér er lagt til að koma á legg. Það á að leitast við að vera hlutlaus aðili við þetta mat.

Ég vil benda á að í lögum frá 1929 er heimild fyrir því að sett verði á stofn sérstök laganefnd. Hún hefur reyndar aldrei verið skipuð. Sú heimild er í lögum nr. 48/1929, frá þeim tíma að prófessor Ólafur Lárusson lagaprófessor var sendur til Svíþjóðar til að kynna sér fyrirkomulagið sem Svíar höfðu komið á með lögum frá 1909 um lagaráðið þar í landi. Hann kom heim með hugmyndir sem kynntar voru á Alþingi og um þær varð mikil umræða um nokkurt skeið. Niðurstaða þeirrar umræðu varð sú að samþykkt voru áðurnefnd lög um laganefndina og hún er að miklu leyti svipaðs eðlis og það sem hér er lagt til þótt, eðli málsins samkvæmt, henni sé ekki ætlað að fjalla um alveg eins mál enda bera lögin um laganefndina merki þess tíma er þau voru samþykkt. En þessi laganefnd hefur aldrei verið skipuð, ef ég veit rétt, og hefur a.m.k. aldrei verið virk.

Förum aðeins yfir fyrirkomulagið í nágrannaríkjunum, ég vil þá horfa sérstaklega til Norðurlandanna, varðandi undirbúning löggjafar. Í Danmörku er starfandi sérstök lagaskrifstofa við dómsmrn. er sinnir lögfræðilegri ráðgjöf við þingið. Með öðrum orðum: Þessi skrifstofa er ekki staðsett eða á neinn hátt undir hatti þingsins heldur alfarið undir dómsmrn. Þetta fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt mjög, m.a. af lögfræðingum og má þar sem dæmi vitna til umræðu í Juristen nr. 3 frá 1993 en þar fjallar Jens Peter Christensen, lektor við Árósaháskóla, um þetta og bendir á hversu þverstæðukennt fyrirkomulag það sé að þingið skuli leita til ríkisstjórnarinnar um lagaráð, þess aðila sem þinginu ber skylda til að hafa eftirlit með. Þetta er kannski eitthvað sem við megum hafa í huga hér á Alþingi. Það er okkar hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og ekki sjálfgefið að við tökum frv. sem koma frá lagaskrifstofum ráðuneytanna beint til afgreiðslu. Ég er ekki að kasta rýrð á þá ágætu lögfræðinga sem þar starfa en það er bara þannig með frv. úr ráðuneytunum að það er meiri hætta á að á þau sé lagt pólitískt mat en gerðist ef óháð, sjálfstætt lagaráð væri starfandi.

Jens Peter Christensen leggur til að sett verði á stofn lagaráð við þingið. Sú umræða hefur reyndar farið mjög hátt í Danmörku allt fram á þennan dag og ekki bara í fagtímaritum lögfræðinga heldur líka í dagblöðum á borð við Politiken. Enn hefur þessu fyrirkomulagi ekki verið komið á þar í landi jafnvel þó menn hafi metið það svo á köflum að fullur pólitískur vilji væri til þess. Af því hefur hins vegar ekki orðið einhverra hluta vegna.

Í Noregi starfar lagaskrifstofa í tengslum við dómsmrn. en hún heyrir hins vegar undir þingið eftir því sem ég best fæ séð af umfjöllun um þetta mál sem ég reyndar fann líka í Juristen nr. 4 frá 1993, eftir Jon Andersen, lektor í stjórnsýslurétti. Þessi lagaskrifstofa veitir ráðgjöf algjörlega sjálfstætt og sú ráðgjöf er ekki á vegum ráðuneytisins. Þessi skrifstofa er mun sjálfstæðari en sú danska. Sérfræðingar eru ráðnir til skrifstofunnar sem slíkrar en ekki til ráðuneytisins enda heyrir hún stjórnsýslulega undir þingið, ef ég skil rétt þessa umfjöllun eftir Jon Andersen. Lagaskrifstofan norska nýtur mikillar virðingar og hefur ekki verið efast mikið um sjálfstæði hennar. Það hefur heldur ekki verið efast mikið um hlutlægni hennar þannig að umræða um þetta hefur ekki verið jafnhávær og í Danmörku, hvorki á meðal lögfræðinga né í dagblöðum og meðal almennings.

Í Svíþjóð er hins vegar starfandi sérstakt lagaráð sem sett var á stofn árið 1909. Í þessu ráði eiga sæti einstaklingar úr hæstarétti og Regeringsretten, sem er í raun og veru æðsta stig stjórnsýsludómstólakerfisins þar. Svíar eru með tvískipt dómskerfi, nokkuð ólíkt okkar að mörgu leyti. Þetta stjórnsýsludómstólakerfi fjallar fyrst og fremst um meðferð mála í stjórnsýslunni og hefur í seinni tíð aðallega haft til meðferðar skattamál og önnur álíka mál sem hafa farið í gegnum stjórnsýsluna. Ráðið kemur saman í byggingu hæstaréttar. Meðlimir þess eru skipaðir til tveggja ára í senn og hafa á þeim tíma ekki öðrum skyldum að gegna fyrir þeim dómstól er þeir starfa hjá. Í lögum er ákveðið hvaða mál skuli fara fyrir lagaráðið og í lagaráðinu fara fram það sem kallað er ,,höring`` sem er í raun --- ja, það er erfitt að þýða þetta orð beint en það er nánast skýrsla tekin af eða yfirheyrsla yfir þeim embættismönnum sem samið hafa frumvörpin. Þeir gera grein fyrir máli sínu munnlega og þetta er gert áður en frumvörpin eru lögð fyrir þingið. Niðurstaða lagaráðsins getur síðan verið að gefa ábendingar eða þá að frumvarpið er umskrifað. Niðurstöðurnar eru einungis leiðbeinandi fyrir ríkisstjórnina en almennt er ráðum þessa lagaráðs fylgt og það nýtur mikillar virðingar í Svíþjóð. Eigi að síður er það svo að dómstólar meta síðan endanlegt stjórnskipulegt gildi laga.

Svo virðist sem aðeins ríkisstjórnarfrumvörp komist fyrir lagaráðið í Svíþjóð, hafi ég hef skilið það rétt, en það skal líka tekið fram --- það er tekið fram í þessari umfjöllun sem ég hef vitnað til --- að sænska þingið býr að mun betri lögfræðilegri þjónustu innan þingsins en t.d. það norska og danska. Þetta er reyndar nokkurra ára gömul umfjöllun og má vel vera að Norðmenn og Danir hafi bætt eitthvað úr en þetta var staðan þegar greinin var skrifuð árið 1993. Ég veit ekki til þess að það hafi breyst mikið.

Frv. til laga um lagaráð sem hér er lagt fram gerir ráð fyrir því að á vegum Alþingis starfi lagaráð sem hefur það hlutverk að setja samræmdar reglur um samningu lagafrumvarpa og annan undirbúning löggjafarmála. Lagaráð er Alþingi og Stjórnarráðinu til ráðgjafar um undirbúning löggjafar, um það hvort frumvörp standast stjórnarskrá eða alþjóðasamninga sem íslenska ríkið er bundið af eða hvort á frumvörpum eru lagatæknilegir ágallar.

Lagaráð er skipað þremur mönnum til fjögurra ára í senn. Þeir skulu hafa embættispróf í lögfræði. Forseti Alþingis skipar lagaráð, einn nefndarmann að tillögu forsætisnefndar Alþingis og skal hann jafnframt vera formaður, annan að tillögu lagadeildar Háskóla Íslands og þann þriðja að tillögu Lögmannafélags Íslands. Forsætisnefnd Alþingis setur ráðinu starfsreglur og kveður nánar á um starfssvið þess og starfsskilyrði.

Starfsemi lagaráðs skal tryggð með framlögum úr ríkissjóði á fjárlögum hvers árs.

Það fyrirkomulag sem hér er lagt til að taka upp er að mörgu leyti einföld leið að betrumbótum í löggjafarundirbúningnum til að styrkja þátt Alþingis í lagasetningunni. Það vekur kannski athygli að í þessu frv. er ekki lagður ítarlegur rammi um hvernig starfsemi ráðsins skuli vera. Það var gert viljandi. Ég tel ekki rétt að njörva það svo mjög niður í lögunum á hvern hátt ráðið skuli starfa. Það mundi mótast af þeim sem til þessara starfa mundu veljast í upphafi auk þess sem ég legg til að forsn. Alþingis setji ráðinu starfsreglur og kveði nánar á um starfssvið þess og starfsskilyrði. Það er auðvitað nauðsynlegt að starfsemi þess sé tryggð með framlögum úr ríkissjóði á fjárlögum hvers árs til þess að einhver bragur sé á málinu.

Eiginlega má segja að í frv. sem hér er lagt fram sé farin leið á milli þess sem við þekkjum annars staðar --- ég kannski hafði það ekki síst í huga við samningu þessa frv. --- og ekki farið út í of viðamiklar eða flóknar framkvæmdir heldur leitast við að koma lagaráðinu, þessu ráðgjafarráði, fyrir innan veggja Alþingis og það mundi síðan mótast í framtíðinni hvernig nákvæmlega starfaði. Hið sama hefur gerst í þeim ríkjum sem ég nefndi hér áðan, að í Svíþjóð, Danmörku og Noregi hafa þessar hugmyndir þróast mjög misjafnlega í hverju landi fyrir sig. Það veltur að sjálfsögðu á, herra forseti, hugmyndum manna á Alþingi, ekki síst forsn. og hæstv. forseta Alþingis, um hvernig þessu máli skuli háttað. Ég tel reyndar eðlilegt að hæstv. forseti Alþingis hafi mikið um það að segja hvernig þessu skuli fyrir komið og forsn. eigi jafnframt að hafa áhrif á hvernig þetta mótast í framtíðinni.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá viðbrögð hæstv. forseta Alþingis við þessum hugmyndum. Ég las um þau í mikilli umfjöllun Morgunblaðsins um þetta mál frá 3. febr. sl. Þeir sérfræðingar sem þar töluðu, þeir lögfræðingar --- það var a.m.k. mat Morgunblaðsins --- komust að þeirri niðurstöðu að komið skyldi á fót lagaráði við Alþingi. Viðbrögð hæstv. forseta Alþingis voru þau að við gætum ekki verið fremstir þjóða alls staðar. Það var ein fyrirsögnin. Hæstv. forseti telur að ekki megi gera of mikið úr þeirri gagnrýni Páls Hreinssonar sem fram kemur í skýrslunni sem hér var vitnað til áðan, að það væru miklir hnökrar á löggjöf okkar og að við ættum ekki að hafa minnimáttarkennd yfir því frekar en prófessorar við háskólann eigi að hafa minnimáttarkennd yfir því að vera ekki jafnmiklir sérfræðingar á þröngum sviðum og starfsbræður þeirra erlendis.

Herra forseti. Ég tel þessi viðbrögð lýsa ákveðnu metnaðarleysi fyrir hönd hv. Alþingis og ég harma það. Ég hef reyndar ekki heyrt neinn málefnalegan rökstuðning fyrir þessari niðurstöðu hæstv. forseta. Ég vonast til að fá að heyra hann hér á eftir því að mér þykja rök hans í umfjöllun Morgunblaðsins frá 6. febr. sl., þar sem hæstv. forseti bregst við þessari umfjöllun Morgunblaðsins og niðurstöðu hennar, ekki vera málefnaleg. Mér finnst þau í raun ákaflega lítil, þau efnisleg rök sem hann bendir á gegn því að þessi leið skuli farin. Ég hefði þvert á móti haldið að þessi leið væri vænleg fyrir Alþingi með tilliti til kostnaðar, umfangs og þess hve mikilvægt er, a.m.k. að mínu mati, herra forseti, að styrkja þátt Alþingis í ríkisvaldinu og styrkja þátt Alþingis í lagasetningunni. Við þekkjum öll þá umræðu í þjóðfélaginu sem farið hefur vaxandi, herra forseti, á síðustu mánuðum, svo ekki sé sterkar að orðið kveðið, að Alþingi sé ekki nægilega sterkt, og njóti ekki þess styrks sem því er ætlaður í stjórnarskrá lýðveldisins. Að sjálfsögðu, herra forseti, hlýtur það að vera okkar sem hér sitjum og störfum að bæta úr. Þá ætti það fyrst og fremst að vera hæstv. forseta Alþingis að leggja til tillögur í þeim efnum þannig að kveða megi niður þennan sífellda orðróm um að Alþingi standi sig ekki sem skyldi í löggjafarundirbúningi og sé ekki æðst af þessum þremur greinum ríkisvaldsins.

Herra forseti. Eitt af hlutverkum Alþingis er að hafa eftirlit með öðrum valdþáttum, að þeir sinni sínum hlutverkum af ábyrgð og í samræmi við grundvallarhugmyndir stjórnarskrárinnar um að valdið skuli vera þrískipt í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hver grein skal samkvæmt þessum grundvallarhugmyndum franska stjórnspekingsins Montesquieus vera óháð annarri en umgjörð þess skal mótuð eða afmörkuð með lögum sem þingið setur.

[14:00]

Það hlýtur því að vera gríðarlega mikilvægt fyrir Alþingi að það skynji þá ábyrgð sem því er falin með stjórnarskránni og leggi sig á allan hátt fram um að vanda sem mest til löggjafarundirbúningsins sem eru nú einu sinni þær umferðarreglur sem þetta þjóðfélag starfar eftir. Það er til skammar, herra forseti, og ég tel það ekki lýsa neinni minniháttarkennd heldur þvert á móti, að það skuli vera jafnmiklir hnökrar á íslenskri löggjöf og bent hefur verið á í skýrslu umboðsmanns Alþingis og svo miklum mun fleiri en í nágrannalöndunum. Það liggur beint við að álykta sem svo að það sé vegna þess að hér fari ekki á sama hátt fram skoðun á því hvort lög, eða frv. þegar þau eru lögð fyrir þingið, séu þess eðlis að þau standist stjórnarskrá og alþjóðlega samninga o.s.frv. Það er okkar, herra forseti, að bæta úr. Enginn annar á að bæta úr þessu. Ég fæ bara ekki skilið, herra forseti, að það sé ekki vilji Alþingis að gera bragarbót á þessu þannig að sómi sé að fyrir okkur sem hér störfum og fyrir þjóðfélagið í heild.

Ekki síður er mikilvægt fyrir réttaröryggi borgaranna að leikreglurnar sem frá Alþing koma séu skýrar og að á þeim séu ekki þeir meinbugir að í ljós komi að lög standist jafnvel ekki stjórnarskrá eins og við höfðum því miður dæmi um. En jafnvel þó að metið sé að lög standist stjórnarskrá þá er ekki þar með sagt að þau séu endilega fullkomin. Við eigum að leggja okkur fram af öllum mætti við að reyna að gera lagasetninguna þannig úr garði að hún sé til sóma fyrir okkur öll.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég tel að þetta mál snúist um skyldur okkar sem löggjafaraðila, um skyldur okkar og virðingu sem löggjafarstofnunar.

Herra forseti. Ég hef ekki heyrt aðrar hugmyndir, hvorki frá hæstv. forseta Alþingis né öðrum sem eru betur til þess fallnar að bæta úr löggjafarundirbúningi en sú tillaga sem hér er lögð fram eða a.m.k. andi þeirrar tillögu, að stofnað verði lagaráð sem verði undir hatti Alþingis og fari með þessi mál.

Ég legg að sjálfsögðu til að frv. þetta verði samþykkt og verði að lokinni þessari umræðu sent til hv. allshn. til afgreiðslu og umfjöllunar.