Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 14:04:15 (4811)

2001-02-20 14:04:15# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil ekki alveg hvað hæstv. forseti Alþingis er að fara en þetta andsvar var kannski enn til vitnis um þá útúrsnúninga sem hann hefur gjarnan þegar þetta mál ber hér á góma í stað þess að bera fram málefnalegar röksemdir fyrir sínu máli. Það er fullkomlega skýrt hvað í þessu felst, herra forseti. Ef hæstv. forseti hefði kynnt sér þá umræðu sem átt hefur sér stað í öðrum þjóðþingum, t.d. í Danmörku, um þessi mál ætti honum að vera fullkunnugt um hvað í þessu felst:

,,Lagaráð er Alþingi og stjórnarráðinu til ráðgjafar um undirbúning löggjafar, um það hvort frumvörp standast stjórnarskrá eða alþjóðasamninga sem íslenska ríkið er bundið af eða hvort á frumvörpum eru lagatæknilegir ágallar.``

Til þess á að skipa þriggja manna ráð löglærðra manna, herra forseti, svo ég endurtaki aftur það sem ég sagði áðan, sem á að meta þetta. Lagaráð á að meta hvort á lagafrumvörpum séu lagatæknilegir ágallar.

Ég ætla ekki að rekja það hér fyrir hæstv. forseta Alþingis hvað lagatæknilegir ágallar eru. Það getur falist í ýmsum hlutum. Það getur m.a. falist í því hvort lög standist innbyrðis, hvort lög stangist á við önnur lög, hvort lög séu óframkvæmanleg. Það eru fjölmörg dæmi um það. Ég get bent hæstv. forseta til upplýsingar, svo að hann kynni sér þetta mál vel áður en hann fer í ræðustól að tjá sig um það efnislega, á skýrslu umboðsmanns Alþingis frá árinu 1987 á bls. 24--38. Þar er nákvæmlega farið yfir þau mál þar sem talið hefur verið að um meinbugi á lögum og stjórnarfyrirmælum væri að ræða.

Herra forseti. Hafi hæstv. forseti ekki tíma til þess að kynna sér þessi mál þá geri ég ráð fyrir því að löglærðir starfsmenn á Alþingi geti orðið honum til ráðgjafar um þetta.