Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 14:34:43 (4818)

2001-02-20 14:34:43# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það rétt að menn hafa í gegnum tíðina með ýmsum hætti reynt að leita sér álits og upplýsinga í lögfræðilegum álitamálum og sjálfsagt eru allar útgáfur þekktar af því að menn hafa leitað til lagadeildar háskólans eða Lagstofnunar og keypt þaðan beinlínis lögfræðiálit í einhverjum fáeinum tilvikum. En það þarf væntanlega ekki að vera neitt leyndarmál að menn hafa oft borið við kostnaði í því sambandi, að Alþingi hafi takmörkuð fjárráð til þess að greiða fyrir slíka vinnu.

Þegar unnið er að löggjöf í rólegheitum sem varðar kannski álitamál lögfræðilegs eðlis, sem tengjast störfum lögmanna eða dómara, þá er auðvitað leitað til félagsskapar þeirra aðila o.s.frv. Þetta er allt saman hægt ef menn eru að vinna í rólegheitum og góðu samkomulagi að einhverri endurskoðun heildarlöggjafar o.s.frv. en aðstæður eru bara ekki alltaf þannig. Því miður er það oft og tíðum svo að alvarlegustu mistökin hafa átt sér stað í tímaþröng og í pólitískum ágreiningi og þá eru oftast öll slík sund lokuð.

Svo kemur enn að einu, herra forseti, sem er það að oft er mjög erfitt að velja til hverra skal leitað þegar allir möguleikar út og suður koma í raun til greina í þeim efnum. Sé um að ræða formlegt lagaráð eða skrifstofu eða aðra slíka farvegi, t.d. að vísa máli til forúrskurðar hjá stjórnlagaráði, er engin deila um það hver hefur þetta hlutverk, það liggur fyrir. Það þarf ekki að byrja á því í hverju einstöku tilviki að fara að reyna að ná samkomulagi um hvort nú eigi að leita til þessa eða hins í þessu eða hinu tilvikinu, kaupa álit frá Lagastofnun eða einhverju lögfræðifyrirtæki o.s.frv.

Ég held að allir sjái að þetta eru miklu óskipulegri, tilviljanakenndari viðbrögð og vinnubrögð en hitt, að koma þessum málum í einhvern fastan farveg.