Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 16:11:49 (4840)

2001-02-20 16:11:49# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[16:11]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta var athyglisverð ræða og enn athyglisverðari orðaskipti í andsvörum. Ég er hér, með leyfi forseta, með Jótlandspóstinn og útdrátt úr frásögn af umræðu sem fór fram 1998 um sérstaka ráðstefnu sem danska þingið setti með stjórnmálamönnum og sérstökum sérfræðingum á lagasviði til að ræða hvernig best væri að haga málum til að gera lagasetningu betri og vandaðri en hafði verið.

Það kom fram á þessari ráðstefnu, herra forseti, og það á erindi í þessa umræðu eftir ræðu hæstv. forsrh., að það yrði hreinlega að setja færri lög, að of mörg frv. væru á ferðinni, þau færu með of miklum hraða í gegnum þingið, það væri lagasjúsk og lélegt og að þetta setti réttaröryggi borgaranna í uppnám. Um þetta ræddu menn í danska þinginu, stjórnmálamenn frá meiri hluta og minni hluta ásamt sérfræðingum á lagasviði. Ég sæi okkur fá tækifæri til þess að eiga slíkar viðræður á jafnréttisgrundvelli við hæstv. forsrh. og stjórnarmeirihlutann hans. Í framhaldi gerði danski forsrh. tillögu til úrbóta og samt er verið að ræða af hálfu allra aðila þar lagaráð í dag.

Herra forseti. Ég var mjög undrandi á því hvað forseti þingsins kom í neikvæð andsvör strax. Ég bjóst við dálítið faglegum umræðum. En ég skil það núna eftir að forsrh. hefur mætt á staðinn og hreytt úr sér bæði ræðu og andsvörum.