Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 16:51:39 (4849)

2001-02-20 16:51:39# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[16:51]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að tjá þingheimi þá skoðun sem hún hefur til þessa litla máls sem við höfum rætt hér í dag.

Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að eftir því sé leitað að hæstv. dómsmrh. tjái sig um þetta mál, einkanlega sökum þess að á undanförnum vikum og jafnvel mánuðum hefur verið talsvert mikil umræða í samfélaginu um þá valdskiptingu sem hér ríkir, hvernig hún er framkvæmd og hver staða þingsins er í því öllu saman. Það er því ekki undarlegt þótt eftir því sé leitað að hæstv. dómsmrh. komi hér og tjái skoðun sína á málinu, ekki nema hæstv. ráðherra ætli að gera það í 2. umr., þ.e. þegar málið er komið úr nefnd. Vel má vera að hæstv. dómsmrh. reikni með því, í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram, að meiri hlutinn muni styðja að málið komist úr nefnd að nýju.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvað hún hafi átt við þegar hún orðaði það svo að þingmenn væru að gera lítið úr hlutverki sínu í umræðunni sem fram hefur farið í dag. Ég vil að hæstv. ráðherra útskýri það.

Í öðru lagi vil ég að hæstv. ráðherra útskýri það viðhorf sitt að löggjöf sé betur fyrir komið á skrifstofum Stjórnarráðsins en á hinu háa Alþingi þar sem lögin eru þó sett enn sem komið er.