Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 16:55:15 (4851)

2001-02-20 16:55:15# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[16:55]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það megi segja ýmislegt um hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur en að hún hafi tjáð sig þannig hér í þessum ræðustól, talað um að lítið væri gert úr þingmönnum, er alrangt. Hv. þm. er oft á tíðum gagnrýnin á þau vinnubrögð sem hér viðgangast en að hún hafi lýst því yfir að þingmenn gerðu lítið úr sér með slíkri umræðu er algjörlega fráleitt. Ég vil mótmæla þessu harðlega. Ég verð, virðulegi forseti, reyndar að játa það að ég skildi ekki svar hæstv. dómsmrh. við spurningu minni um hvað hún ætti við.

Ég vil jafnframt fylgja eftir seinni spurningunni sem ég spurði hæstv. ráðherra. Hún laut að því hvers vegna eftirliti með góðri löggjöf, ef svo má að orði komast, er betur komið fyrir í Stjórnarráðinu en á hinu háa Alþingi. Ég held að flestir geri sér grein fyrir því að það er ekki mjög líklegt að skrifstofa sem heyrir undir einstakan ráðherra muni senda frá sér álit þar sem tekið væri fram að tiltekin löggjöf, þ.e. tiltekin pólitík eða tiltekin hugmyndafræði ráðherrans sem réði yfir slíkri skrifstofu, standist ekki stjórnarskrá eða alþjóðasamninga. Ég held að það sé heldur ólíklegt. Þess vegna erum við með frv. því sem hér er til umræðu að leggja til að auka og efla hlutverk þingmanna. Út á það gengur þessi tillaga. Þess vegna vil ég mótmæla harðlega yfirlýsingu hæstv. dómsmrh. um að með þessari umræðu séu þingmenn að gera lítið úr hlutverki sínu.