Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 17:15:03 (4854)

2001-02-20 17:15:03# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[17:15]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki oft sem flutningsmenn eru í málþófi um eigið frv. eins og er í þessu máli.

Það var eftirtektarvert við ræðu hv. 6. þm. Suðurl., Lúðvíks Bergvinssonar, að hann forðaðist eins og heitan eldinn að víkja nokkurn tíma að frv. sjálfu og hvaða breytingum það mundi valda. Hann var með upphróp eins og t.d. að ýmsir okkar vildu ekki bæta vinnubrögð Alþingis, sem hann sjálfur veit að er fullkomlega rangt. Satt að segja er undarlegt að hv. þm. skuli telja það trúverðugt fyrir sjálfan sig að endurtaka hér ósannindi af þessu tagi. Ég hygg að enginn vafi sé á því að ég hafi nokkru oftar en hann tekið það mál upp hér á Alþingi hvernig hægt sé að bæta vinnubrögð þess. Ég hygg að það sé líka ljóst að ég hafi nokkru oftar en hann setið í nefndum Alþingis og rætt þar um hvernig hægt sé að bæta vinnubrögð nefnda. Mér finnst þannig undarlegt að hann skuli halda slíku fram og halda að hann með því geti fegrað málstað sinn.

Annað sem vakti athygli mína er að hv. þm. vék að því að við hefðum gert athugasemdir við 1. mgr. frv., með leyfi hæstv. forseta:

,,Á vegum Alþingis starfar lagaráð sem hefur það hlutverk að setja samræmdar reglur um samningu lagafrumvarpa og annan undirbúning löggjafarmála.``

Hið eina efnislega sem hann sagði um þessa setningu var að hann vildi láta verklagið móta hvernig þessi hugmynd væri unnin. Hann sagði að hér væri sett fram hugmynd um hvernig ætti að bæta vinnubrögð á Alþingi og bætti síðan við að verklagið ætti að móta hvernig hugmyndin yrði unnin. Það væri kannski gott að fá gleggri vitneskju um þennan þankagang, hvernig hann hugsaði sér verklagið og hvernig hann hugsar sér að þetta eigi að ganga fyrir sig.