Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 17:19:14 (4856)

2001-02-20 17:19:14# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[17:19]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það fór eins og áður að hv. þm., þó lögfræðingur sé, fæst ekki til að ræða efnislega um 1. gr. frv.

Hvað er átt við með því að lagaráð skuli hafa það hlutverk að setja samræmdar reglur um samningu lagafrv. og annan undirbúning löggjafarmála? Hver á að vera bundinn af þessum samræmdu reglum? Hver á að staðfesta þessar samræmdu reglur? Eiga þessar samræmdu reglur að binda þingmenn? Hvað þýðir þetta?

Um þetta fæst hv. þm. ekki frekar en aðrir flutningsmenn til að tala í alvöru, sem varla er von því að þessi setning er satt að segja hálf dularfull. Hann segir að hún sé opin, opin í merkingunni merkingarlaus eða eitthvað því líkt.

Ég hlýt líka að vekja athygli á öðru. Við höfum unnið að því að styðja hér nefndasviðið með því að fjölga lögfræðingum og bæta starfsaðstöðu þeirra. Ég lýsti því yfir hér í ræðu fyrr í dag að ég vildi vinna enn frekar að því. Hv. þm. var hér inni þegar ég lýsti þessu yfir. Nú stendur hann hér upp hvað eftir annað og lýsir því yfir að ég vilji ekki styrkja löggjafarstarf Alþingis eða undirbúning og vinnslu frv., gagnstætt því sem ég hef sagt. Auðvitað má velta því fyrir sér hvað þýði yfir höfuð að ræða við þingmenn sem haga málflutningi sínum þannig.

Annað vil ég líka benda á. Ef lagaráð Alþingis er sett þá hlýtur það að vera lagt til grundvallar að Alþingi hafi sjálft um það að segja eftir hvaða starfsreglum það vinnur. Hér er gert ráð fyrir því að tveir lögfræðingar, sem aðilar úti í bæ ráða hverjir eru, skuli hafa meiri hluta í lagaráði og ráða þeim starfsreglum sem hér er talað um, að þeir skuli setja samræmdar reglur um samningu lagafrv., menn úti í bæ.