Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 17:25:01 (4859)

2001-02-20 17:25:01# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[17:25]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi sagt það nokkrum sinnum í ræðu minni að sú hugmynd sem hér er lögð fram felist fyrst og fremst í því að styrkja þingið, styrkja Alþingi í þeirri vinnu sinni að setja lög og jafnvel að undirbúa löggjöf. Ég held að því veiti ekki af. Þess vegna er ljóst að það er ákveðinn hugmyndafræðilegur ágreiningur um hvert eigi að vera hlutverk þingsins.

Ég spyr hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur hvort hún haldi að það að lagaskrifstofa sé sett upp í dómsmrn. sé til þess fallið að styrkja þingið. Ég get einnig upplýst hv. þm. um að sú skipan mála sem lengi hefur verið í Danmörku hefur valdið miklum deilum. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að þar hefur ekki verið algjör sátt um skipan mála.

Hugmyndafræðin sem þessi litla hugmynd byggir á, því auðvitað er þetta lítil hugmynd um að setja á stofn ráð til þess að styrkja þingið, er að styrkja Alþingi, styrkja Alþingi sem handhafa eins þáttar ríkisvaldsins. Það er alveg klárt, virðulegi forseti, að við erum bara ekki sammála því að það styrki þingið eitthvað sérstaklega að dómsmrn. eða forsrn. fái undir sinn hatt einhvern kontór, einhverja sérstaka lagaskrifstofu. (Gripið fram í.) Við erum ósammála því að þetta eigi að vera þar. Það er nú bara hinn harði veruleiki. Í þessu felst okkar pólitík og skoðun á því hvernig eigi að framkvæma þrískiptingu ríkisvaldsins.