Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 17:50:46 (4863)

2001-02-20 17:50:46# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[17:50]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög undarleg ræða hjá hv. 3. þm. Vesturl. Hann kom ekki í ræðustól til að fjalla um frv. sem hér liggur fyrir, nema hann væri þá helst að gefa það í skyn að hann hefði hugsaði sér að lagaráð mundi leysa Hæstarétt af hólmi. Það var eitthvað í þá veru sem hv. þm. virtist tala um hér áðan.

Hann talaði einnig um að hæstaréttardómarar væru ekki hæfir, þeir væru undir áhrifum og létu undan hverjum goluþyt. En væri þá kannski fróðlegt, úr því að hv. þm. talar svona mikið um sjávarútvegsmál þegar lagaráð er á dagskrá, að spyrja hann hvort hann sé sammála þeim hugmyndum formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að fækka um einn bát af hverjum tíu á hverju einasta ári á Snæfellsnesi þannig að enginn verði eftir eftir tíu ár. Telur hv. þm. að það standist stjórnarskrána?

Ef við hugsum okkur að það séu tíu bátar í Grundarfirði þá vill þessi hv. þm. gera einn bát upptækan á hverju ári svo að þar verði enginn bátur eftir eftir tíu ár. Hann vill svipta þá sjómenn sem hann sjálfur hefur atvinnu af því að þjóna lífsviðurværinu, taka um tíunda hvern fisk á ári í tíu ár þangað til engar aflaheimildir eru eftir. Þetta telur hv. þm. sanngjörn og rétt lög í landinu og þetta sem hann telur vera jafnaðarmennsku. Að þessu stefnir hann, að þeir sem búa í sjávarplássunum og sjávarþorpunum hafi ekki atvinnuöryggi, hafi ekki frelsi til að reka fyrirtæki og geti ekki horft fram í tímann. Þetta telur hv. þm. að standist stjórnarskrá.