Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 17:58:07 (4867)

2001-02-20 17:58:07# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[17:58]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. flutningsmönnum þessa frv. fyrir framlagningu þess. Þetta frv. hefur vakið góða umræðu. Hins vegar hefur lítið farið fyrir umræðu um frv. sjálft. Ég ætla nú að gera bragarbót þar á.

Í fyrsta lagi stendur hér, með leyfi herra forseta,:

,,Á vegum Alþingis starfar lagaráð sem hefur það hlutverk að setja samræmdar reglur um samningu lagafrumvarpa og annan undirbúning löggjafarmála.``

Þetta ákvæði hygg ég að stangist á við stjórnarskrána en þar segir, með leyfi herra forseta, í 38. gr.:

,,Rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana hafa alþingismenn og ráðherrar.``

Það er sem sagt ekki hægt að setja neinar reglur um það. Hvorki lagaráð né aðrir geta sett um það samræmdar reglur um hvenær þingmenn geti flutt sín frumvörp. Auk þess stendur í 48. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi herra forseta:

,,Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.`` --- Né öðrum, hvorki lagaráði né öðrum.

Síðan stendur í frv., með leyfi forseta:

,,Lagaráð er Alþingi og Stjórnarráðinu til ráðgjafar um undirbúning löggjafar ...``

Það er hreinlega gert ráð fyrir því að Stjórnarráðið semji lög, sem er hlutverk Alþingis samkvæmt stjórnarskránni og mínum skilningi. Með þessu frv. er formlega séð verið að flytja til Stjórnarráðsins vald sem það hefur í raun í dag.

Þetta lagaráð er ekki einu sinni skipað þingmönnum. Það væri þó sök sér fyrst það á að setja reglur um starfsemi og vinnubrögð þingmanna. Nei, það er skipað að tillögu lagadeildar Háskóla Íslands og að tillögu Lögmannafélags Íslands auk forsn. Alþingis þannig að 2/3 lagaráðs sem á að setja reglur um lagafrv. sem þingmenn eiga að semja, er skipað mönnum sem ekki sitja á Alþingi, ekki eru til þess kosnir og ekki hafa löggjafarvald eins og hv. Alþingi hefur. Þetta var efnislega um frv. sjálft.

[18:00]

Herra forseti. Ég hef margoft nefnt að Alþingi er afskaplega vanmáttugt, ekki endilega það þing sem nú situr heldur hefur Alþingi alla tíð verið mjög vanmáttugt í lagasetningu. Það hefur ekkert frumkvæði að lagasetningu almennt séð. Það fer lítið fyrir því. Nú er það þannig að sá sem hefur frumkvæði að lagasetningu ræður ansi miklu um það hvernig lagasetningin lítur út. Sá sem setur niður fyrsta textann er í reynd búinn að setja niður hvernig lögin líta út á endanum og allar breytingar sem á að gera á þeim texta þurfa rökstuðnings við.

Ég hef margoft nefnt þetta. Þau lög sem við erum að samþykkja koma vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Þar má ekki beita franska textanum svo neinu nemur. Síðan koma lög sem ráðuneytið og stofnanir þess og þeir aðilar sem eru að framkvæma lögin hafa samið. Það er að mörgu leyti mjög vafasamt, herra forseti. Ég hef stundum orðað það þannig að þær stofnanir sem eru að kljást við borgarana smíða sjálfar vopnin sem þeir nota til þess að kljást við borgarana.

Svo koma veigamestu frv., eins og ég hef margoft nefnt, frá aðilum vinnumarkaðarins og það er það sem skiptir einhverju máli varðandi lífeyrisrétt og skattalög. Þetta er raunveruleikinn, herra forseti, og lagaráð lagar þetta ekki neitt.

Það sem menn hafa nefnt er ákveðið gæðaeftirlit á lögum. Það getur Alþingi gert án þess að setja lög. Það gerir það bara með fjárveitingu í fjárlögum. Það hefur verið að gera það undanfarið. Það hefur undanfarið byggt upp mjög myndarlega nefndaskrifstofu með mjög færu fólki og spurningin er að vinna áfram í því og auka það stórlega þannig að við fáum enn betri lagasetningu en verið hefur. Þetta má gera með fjárveitingu sem Alþingi sjálft ákveður. Alþingi sjálft er nefnilega að borga þeim mönnum laun sem eru að semja lög úti um allan bæ, hvort sem það er í stofnunum eða ráðuneytum. Það var allt gert á kostnað Alþingis með fjárveitingu frá Alþingi. Að sjálfsögðu gæti Alþingi ákveðið að þetta fjármagn rynni til nefndaskrifstofunnar og þetta sama fólk sæti þar að semja lög að frumkvæði alþingismanna.

Herra forseti. Ég held að við þurfum að snúa við því sem er í dag um tilurð frumvarpa. Ég vil að nefndir þingsins og einstakir þingmenn geti flutt frv. og eigi að flytja frv. og semja þau að ábendingu frá t.d. ráðuneytum. Félmrn. getur sagt að það þurfi lagasetningu í barnalögum til að laga eitt og annað að ábendingu stofnana, barnaverndarráð eða Barnaverndarstofa getur sagt að lög vanti um þetta og þetta, eða að ábendingu hagsmunaaðila. ASÍ getur sagt eitthvað. Eða þá að ábendingu einstaklinga sem þykja á sér brotið. Síðan taki t.d. ákveðin nefnd þingsins ákvörðun um hvort ástæða sé til að setja lög og semji lögin, sendi þau síðan til ráðuneytanna til umsagnar og hagsmunaaðila, eins og gert er, til að athuga hvernig gangi að framkvæma lögin. Þetta er akkúrat öfugt í dag. Nú eru þingmenn í fullri vinnu við það að kanna hvernig gengur að framkvæma lög sem ráðuneytin hafa samið. Þetta er öfug röð að mínu mati.

Ef þetta yrði gert væri Alþingi orðið ábyrgt fyrir lögum sínum sjálft, hefur samið þau og ber fulla ábyrgð á þeim. Um leið þyrfti Alþingi að hætta að vasast í framkvæmdum eins og kemur fram í fjárlagafrv. þar sem Alþingi er að ráða menn og reka, þýða bækur, rækta hunda og ég veit ekki hvað. Þessu þarf að linna. Það á að setja almenna ramma fyrir ráðuneytin til að starfa eftir og síðan eiga þau að bera ábyrgð á framkvæmdinni en að sjálfsögðu getur ráðuneytið ekki borið ábyrgð á framkvæmdum sem Alþingi ákvað.

Vandinn er þríþættur. Það er í fyrsta lagi uppruni og frumkvæði að lögum, í öðru lagi ákveðið gæðaeftirlit og í þriðja lagi ágreiningur sem varðar stjórnarskrána. Fyrsta atriðið hef ég nefnt, um uppruna og frumkvæði að lögum. Annað atriðið getum við sjálf gert með gæðaeftirliti innan þingsins í nefndaskrifstofum og þriðja atriðið er um ágreining, þ.e. hvort lög standist stjórnarskrána, á að vísa til Hæstaréttar. Ég vil að Hæstiréttur taki að sér hlutverk stjórnlagadómstóls þegar þannig stendur á og við séum ekki að búa til nýtt batterí, nýjan stjórnlagadómstól. En þá þurfi ríkur meiri hluti Hæstréttar að standa að því máli. Þegar um það er að ræða hvort ákveðin lög brjóti stjórnarskrána þá þurfi ríkur meiri hluti Hæstaréttar, t.d. sex af níu, að greiða því atkvæði og úrskurður þarf að vera mjög greinilegur, annaðhvort já eða nei þannig að ekki sé spurning um það hvort lög brjóti stjórnarskrána eða ekki.

Þessum málum má vísa til Hæstaréttar, t.d. ef meiri hluti þingmanna greiðir því atkvæði eða ef mál er höfðað og fer í gegnum dómskerfið og endar hjá Hæstarétti, þá getur hann að eigin frumkvæði tekið ákvörðun um að þessi ríki meiri hluti Hæstaréttar taki ákvörðun um hvort þessi lög brjóti stjórnarskrána eða ekki. Þarna fengi Hæstiréttur nýtt hlutverk sem væri formlega séð hlutverk stjórnlagadómstóls án þess að búið sé til nýtt batterí, án þess að auka kostnað. En það hefur ekki verið nefnt og ekki tekið fram hvað þetta frv. muni kosta.

Þetta eru hugleiðingar mínar um þetta frv. og ég held að þetta frv. leysi ekkert af þessum vandamálum. Þetta lagaráð brýtur í fyrsta lagi hugsanlega að mínu mati stjórnarskrána og það kostar náttúrlega sitt og bætir í rauninni ekki það sem hægt er að bæta hreinlega með fjárlögum.