Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 18:11:41 (4871)

2001-02-20 18:11:41# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[18:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Fyrst svo er þyrfti að sjálfsögðu að breyta 1. gr. og setja inn að hlutverk lagaráðs sé að setja ráðgefandi samræmdar reglur eða eitthvað því um líkt og að þingmönnum beri ekkert að fara eftir þeim. Þá er spurningin til hvers er verið að þessu. Ég skil vel góðan hug þingmanna til að bæta vinnubrögð Alþingis. Eins og ég gat um þá er hugsanlegt að ná því fram með því að stórefla skrifstofu nefndasviðs og með því að flytja þá menn sem eru að semja frumvörp úti í stofnunum og ráðuneytum til Alþingis þannig að þeir semji frv. í umboði þingmanna en ekki í umboði framkvæmdarvaldsins. Þannig mætti skerpa á aðgreiningu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds en um leið þyrfti Alþingi að hætta að vasast í framkvæmdum eins og ég gat um. Í sjálfu sér held ég að hægt sé að ná fram öllum þessum góða vilja hv. flutningsmanna með fjárveitingu á fjárlögum.