Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 18:26:48 (4873)

2001-02-20 18:26:48# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[18:26]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ekki er nú farið í þessar breytingar breytinganna vegna. Það hefur margoft verið rakið í umræðunni að ástæða er fyrir þessum breytingatillögum.

Þráspurt hefur verið, nú síðast af hv. þm. Þorgerði Gunnarsdóttur, hvað gerist ef menn fara ekki að ráðum lagaráðsins. Ég vil bara benda á að eðli málsins samkvæmt eins og lagt er til í tillögunni þá er lagaráð Alþingi og Stjórnarráðinu til ráðgjafar um undirbúning löggjafar. Svo er eðli málsins samkvæmt þegar um er að ræða ráðgjafarráð. Þá felur það aðeins í sér að það er álitsgefandi og ráðgefandi. En niðurstaða þess er ekki bindandi. Og það er í samræmi við það sem hefur verið í nágrannaríkjunum. Hvaða fyrirkomulag svo sem menn hafa á þessum lagaráðum þá eru þau ráðgefandi en ekki bindandi. Áfram er það síðan þannig að dómstólar leggja endanlegt mat á stjórnskipunarlegt gildi laga. Aðrar eftirlitsstofnanir eins og t.d. umboðsmaður Alþingis fylgjast áfram með sínum þáttum málsins o.s.frv. Það er því ekki verið að hreyfa við neinum öðrum þáttum í þessari tillögu, eingöngu því að koma á ráðgefandi ráði við hið háa Alþingi og við ríksstjórnina sem geti aðstoðað okkur við löggjafarundirbúninginn. Það er tilgangurinn með þessu öllu saman.

Hv. þm. sagði áðan að vel kæmi til greina að setja á stofn skrifstofu á borð við þær sem eru á Norðurlöndunum, a.m.k. útilokar hún ekki þann möguleika. Því vil ég spyrja hvort hv. þm. sé þeirrar skoðunar að ástæða sé til að styrkja enn frekar þátt framkvæmdarvaldsins í lagasetningunni eða hvort hún samsinni því ekki með mér og þeim fjölmörgu sem hér hafa talað að þvert á móti þurfi að styrkja þátt Alþingis í lagasetningunni. Ég vildi spyrja hv. þm. að þessu.