Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 18:28:53 (4874)

2001-02-20 18:28:53# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[18:28]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. sem hlustaði væntanlega á mig áðan getur getið sér til um þá er ég ekki að útiloka einn eða neinn kost hvort sem lagaskrifstofan verði í Stjórnarráðinu, hér á hinu háa Alþingi eða að efnt verði til lagaráðs, því að við höfum dæmi um það frá Danmörku. Ein meginforsendan fyrir því að þið leggið þetta fram, hv. þingmenn, er sú að það á að fækka lagatæknilegum göllum á frumvörpum. Þeir hafa ekki verið til staðar í Danmörku svo að hægt sé að tala um. Það er m.a. lagaskrifstofu þess stjórnarráðs að þakka þannig að það er ekki meingallað að hafa lagaskrifstofu innan viðkomandi stjórnarráðs, engan veginn svo. Og um leið og þeim lagatæknilegu göllum fækkar þá sendum við hér á Alþingi auðvitað frá okkur betri lagafrv. Það er nú einu sinni þannig.