Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 19:13:27 (4888)

2001-02-20 19:13:27# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[19:13]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir gleymdi einu atriði varðandi röksemdafærslu með þessu lagaráði sem ég gat um áðan. Ég reyndi að koma inn á bæði kosti og galla þess og ég minnist m.a. á að það væri þunglamalegt, ég óttaðist að það yrði þunglamalegt og mundi draga úr einum helsta kosti lagasetningarkerfis okkar, þ.e. sveigjanleika þess, þess að geta brugðist fljótt við. Ég hef orðið vör við það á ferðum mínum m.a. og í samtölum við þingmenn annars staðar frá að þeim finnst oft viðbrögð og sveigjanleiki þess kerfis sem þeir búa við vera ansi rýr.

Mér finnst líka miður ef hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir ætlar að flauta strax út af þá tillögu mína að athuga hvaða kosti það hefur að bæta og efla og styrkja enn frekar nefndasviðið eða einhverja ákveðna lagaskrifstofu innan þingsins. Ég hef ekki verið að flauta strax út af þetta frv. um lagaráð. Ég vil kanna þetta, skoða þetta betur. Ég hef mínar efasemdir án þess þó að vilja útiloka eitt eða neitt. En ég mundi gjarnan einnig vilja að fram færi könnun á lagasetningu frá 1997, frá þeim tíma þegar skýrsla umboðsmanns Alþingis var birt og fram til dagsins í dag. Þetta er einmitt sá tími sem starfsemi Alþingis hefur eflst og styrkst hvað mest og því væri slík könnun mjög fróðleg.

Einnig vil ég minna á að við fáum þá fagaðila sem hv. þm. benti á, þ.e. Lögmannafélagið og lagadeild Háskóla Íslands, hvort sem er sem umsagnaraðila við störf nefnda þingsins þegar þær hafa til meðferðar lagafrumvörp almennt fyrir 2. umr.