Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 19:18:50 (4891)

2001-02-20 19:18:50# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[19:18]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara ítreka það enn og aftur að ég tel mjög mikilvægt að efla nefndasviðið. Ég tel hins vegar að þó að margir kostir séu við það að hafa sterka lögfræðiþekkingu beint á vegum þingsins yrði það ekki á sama hátt að mínu mati jafnsjálfstætt fyrirbæri og þetta lagaráð sem hér er lagt til. Það hefði ekki sömu sérþekkinguna í því að fjalla nákvæmlega um mál á þann hátt sem hér er lagt til að fara yfir mál með tilliti til þessara sjónarmiða eingöngu og hefði eingöngu það hlutverk, auk þess sem þá yrði ekki heldur aðkoma þessara tilnefningaraðila sem ég tel mikilvægt að hafa inni í þessari mynd.

En það er mjög mikilvægt að efla lögfræðiþekkingu innan þingsins og nefndasviðið eins og reyndar hefur verið gert á síðustu árum og hefur verið mjög til bóta. En ég segi það enn og aftur, það dugir ekki að mínu mati, ég held að við þurfum alveg eins og þjóðirnar í kringum okkur að hafa einnig sérstakt ráð eða nefnd, skrifstofu eða hvað sem við köllum það á borð við það sem hér er lagt til og ég sé ekki enn rökin fyrir því af hverju við ættum að þurfa eitthvað minna umleikis í þeim efnum en aðrir.