Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 19:20:21 (4892)

2001-02-20 19:20:21# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[19:20]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þessi umræða hefur orðið mjög fróðleg og margt komið fram sem hægt er að segja að sé óvænt eins og t.d. sú skoðun eða afstaða hv. 9. þm. Reykv., Bryndísar Hlöðversdóttur, að spurningin sé hvort við viljum styrkja þátt Alþingis í lagasetningunni eða þátt framkvæmdarvaldsins sem hv. þm. talaði síðar um að það væri viðleitni flutningsmanna til að rétta hlut Alþingis í lagasetningarvaldinu, eins og það var orðað.

Þetta er satt að segja skrýtin hugmynd: Að til grundvallar ráðgefandi lagaráði sé það að draga úr áhrifum framkvæmdarvaldsins í lagasetningarvaldi. Þetta er nú eitthvað þokuleg hugsun satt að segja.

Þegar við erum að tala um og höfum verið að tala um það að við viljum bæta vinnubrögð á Alþingi hafa umræður venjulega snúist um það hvort Alþingi hafi tök á að fara yfir hvort lagafrv. séu lagatæknilega rétt unnin eða hvort við getum treyst því t.d. að stjórnarfrv. séu lagatæknilega rétt unnin um atriði sem ekki eru pólitísk í eðli sínu og ekki skiptir alþingismönnum í stjórnmálaflokka. Ég held að enginn ágreiningur sé um það fyrr en núna í dag, og þá við formann þingflokks Samfylkingarinnar, að þingmenn hafa lagt á það áherslu síðan framkvæmdarvaldið fluttist til landsins og ekki síður meðan framkvæmdarvaldið var í Danmörku að þau mál sem væru lögð fyrir Alþingi af framkvæmdarvaldinu væru vel unnin og það mætti treysta því að þeir lögfræðingar sem komu að samningu frumvarpanna hefðu unnið sitt verk vel og það stæðist sem þar segði í athugasemdum og skýringum með einstökum lagagreinum og Alþingi þyrfti ekki að fara í gegnum það frá upphafi til enda eins og hroðvirknislega hafi verið að frumvörpunum unnið.

Á þetta höfum við viljað leggja áherslu, ýmsir þingmenn. Þess vegna kom mér á óvart að hv. þm. skyldi snúa út úr því hjá forsrh. og dómsmrh. þegar þau töluðu um að á síðustu árum hefði Stjórnarráðið staðið betur að samningu lagafrv. en áður hefur verið, minntu á að þrýstingur umboðsmanns Alþingis hefur ýtt á eftir því að ráðherrar gæti sín að lagaheimildir og lagastoð sé fyrir því sem gert er í sambandi við reglugerðir og ýmislegt annað og þess vegna sé við því að búast að þau frv. sem lögð hafi verið fyrir Alþingi síðustu árin hafi verið betur unnin en áður. Þessi skylda hvílir auðvitað á Stjórnarráðinu, á ríkisstjórninni. Og það er ekki til þess að draga úr virðingu Alþingis þó að ég og forsrh. segjum hér í ræðustól að við viljum að Stjórnarráðið vandi betur undirbúning og gerð þeirra frv. sem eru lögð fram þannig að alþingismenn geti treyst því að þar sé lagatæknilega rétt að málum staðið. Ég vil að þetta komi alveg skýrt fram.

Þá vil ég í annan stað taka fram þegar verið er að tala um lagaráð eins og hér er fjallað um, þá segir hver flutningsmaðurinn á fætur öðrum að þetta sé einungis ráðgefandi lagaráð. Ráðgefandi lagaráð á að setja reglur um samningu lagafrv. og annan undirbúning löggjafarmála. Ráðgefandi lagaráð á að setja reglur um undirbúning löggjafarmála.

Þegar ég síðan spyr hv. flm.: Hvað á hann við með því að lagaráð eigi að setja reglur um undirbúning löggjafarmála? Ég fæ ekki svar við því. Þá er mér sagt: Þetta er opið, reynslan eigi eftir að skera úr um það. Þegar ég spyr hv. flm., af því að svo stendur á að ég er forseti Alþingis, og hér stendur að forsn. Alþingis eigi að setja ráðinu starfsreglur og kveða nánar á um starfssvið þess og starfsskilyrði. Og þegar ég síðan hér í sölum Alþingis spyr flm.: Til hvers ætlast þeir af forsn., hvaða hugmyndir hafa þeir uppi um starfssvið lagaráðsins? Þá er sagt að það séu einmitt kostir þessa frv. að það skuli ekki nánar kveðið á um það og sagt að yfirleitt sé það svo um lagasetningu að það sé ágætt að heimildir fyrir reglugerðir séu sem allra víðastar, eins og ég skildi hv. þm.

Þetta er að vísu algjörlega nýtt viðhorf hjá stjórnarandstöðuþingmanni. Ég man ekki eftir þvílíku trausti á ríkisstjórn eins og felst í þessari afstöðu þingmannsins. Þvert á móti hafa stjórnarandstöðumenn yfirleitt reynt að knýja á um það að ráðherrar skýri sem nákvæmast frá því hvernig þeir vilji beita reglugerðarvaldi sínu. Og ef þeir tala um starfssvið og annað í lögum þá er að því fundið að það skuli ekki nánar kveðið á um það. Þess vegna finnst mér skrýtið að hv. þm. skuli ekki taka því fagnandi að einhver vilji á það hlusta hvernig hann hugsi sér að þetta mál sé nánar útfært og segi einungis að þetta sé útfærsluatriði eða úrvinnsla. En þetta hefur ekkert með það að gera að rétta hlut Alþingis, síður en svo.

Síðan komu við að því hvaða tilgang lagaráð geti haft ef það er einungis ráðgefandi, ef þeir sem í lagaráðinu eru að meiri hluta njóta ekki trausts alþingismanna. Ég hygg að það sé a.m.k. alveg ljóst ef hér á að kallað til þrjá sérfræðinga sem ekki eru alþingismenn til að hafa vit fyrir alþingismönnum, þá geri ég ráð fyrir því að formenn þingflokkanna vilji hafa eitthvað um það að segja hverjir þessir þrír menn eru. Þeir hafa skipt sér af öðru eins í starfsemi Alþingis og því. Þess vegna hygg ég að sú ábending að slíkt lagaráð yrði að meiri hluta til skipað mönnum sem Alþingi gæti ekkert ráðið hverjir yrðu, muni falla í grýttan jarðveg þegar þetta mál kemur að úrvinnslu. Skil satt að segja ekki hvernig flm. datt í hug að setja þetta fram með þessum hætti. Og ekki er verið að reyna að rétta hlut Alþingis í lagasetningu sem löggjafarvalds með því að kalla til þrjá menn á þennan hátt.

Ég vil, herra forseti, úr því að ég hef ekki tíma til að víkja að öllu því sem ég hafði raunar löngun til að gera, enn leggja áherslu á að undanfarin ár hefur verið unnið að því markvisst að styrkja nefndasvið Alþingis. Sjö lögfræðingar vinna nú á nefndasviði. Það er enginn vafi á því að þingmenn hafa allt önnur tök á því nú en áður að fara yfir lagafrv. svo vel sé.

Ég vil lýsa því yfir, eins og ég hef raunar áður gert á fundum með formönnum þingflokka, að ég tel mikilvægt að Alþingi reyni að vanda meðferð og yfirferð á lagafrv. áður en að lögum verða en séu ekki í vorhreingerningarumræðum í því sambandi. Og ég vil enn segja að það yrðu mér mikil vonbrigði ef í ljós kæmi að Alþingi hafi ekki ráð á því að leita sérfræðiálits á lögum ef það þætti nauðsynlegt.

Að síðustu hlýt ég, herra forseti, að láta í ljósi vonbrigði mín og undrun yfir þeim ummælum sem hv. 3. þm. Vesturl., Jóhann Ársælsson, hafði um Hæstarétt og vona að þvílík ummæli eigi aldrei eftir að heyrast aftur hér í sölum Alþingis.