Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 19:30:37 (4893)

2001-02-20 19:30:37# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[19:30]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal talaði um þokulega hugsun. Ég leyfi mér að halda því fram að ýmsir fleiri hafi látið hér í ljósi þokulegar hugsanir en sú sem hér stendur.

Honum þykir það þokuleg hugsun að það sé viðleitni flutningsmanna þessa frv. að styrkja þátt Alþingis í lagasetningunni og að draga úr vægi framkvæmdarvaldsins í henni. Það tel ég ekki vera, herra forseti, og ég hef rökstutt það hér fyrr í dag hvers vegna ég tel svo ekki vera.

Hv. þm. sagði að þingmenn væru almennt sammála um það að frumvörp frá framkvæmdarvaldinu séu vel unnin en það liggur samt svo í málinu, herra forseti, að frá þessari háttvirtu stofnun koma fleiri lög sem eru haldin ýmsum göllum og meinbugum en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Það var a.m.k. sú niðurstaða sem umboðsmaður Alþingis komst að á sínum tíma og má vel vera að eitthvað hafi staðið til bóta í þeim efnum.

Herra forseti. Við erum höfum nýverið rætt svokallað öryrkjamál þar sem því var nákvæmlega svo háttað að Hæstiréttur dæmdi lög sem komu frá Alþingi árið 1998 í andstöðu við stjórnarskrá. Ég vona að hv. þm. hafi ekki gleymt því. Þetta gerist og við verðum að horfast í augu við að ekki er nægilega vel staðið að þessum undirbúningi.

Ég fer fer fram á það, herra forseti, að hv. þm. beri virðingu fyrir þeirri skoðun sem er lögð fram í þessu frv. að best sé að bregðast við þessu á þann hátt sem hér er lagt til þó svo að hann kunni sjálfur að hafa á því aðrar skoðanir.

Varðandi reglugerðarheimildir og að hér sé um að ræða að forsn. setji reglur þá eru þetta útúrsnúningar, herra forseti. Ef við tökum reglugerðarheimildirnar þá eru þær jafnan þannig að nánast er sagt: Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd laganna. Ég hef ekki heyrt hæstv. ráðherra kvarta mikið undan því að þeir vilji fá reglugerðirnar tilbúnar nánast með lagafrv. vegna þess að annars viti þeir ekki hvað þeir eigi að gera, hvaða reglur þeir eigi að setja. Það er beinlínis í þeirra valdi að setja reglur sem eru innan marka þeirra laga sem reglugerðarheimildin byggir á og þetta á hv. þm. að þekkja.