Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 19:32:51 (4894)

2001-02-20 19:32:51# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[19:32]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þori ekki að fullyrða það en mér er nær að halda að umboðsmaður Alþingis hafi varað við því að reglugerðarheimildir séu of víðar. En ég heyri að hv. þm. er þar á öðru máli og er ekkert við því að segja.

Ég hlýt að láta í ljósi undrun mína yfir því að ekki sé hægt að koma því til skila sem ég sagði og sem forsrh. sagði í dag að við teldum að á síðustu þremur árum hefðu stjórnarfrv. verið betur unnin en áður og það sé m.a. því að þakka að tekið hefur verið mark á ýmsum ábendingum umboðsmanns Alþingis. Ég skil ekki hvers vegna hv. þm. getur ekki meðtekið þann einfalda boðskap.

Ég hlýt í annan stað að láta í ljósi undrun mína yfir því að það skuli vera eitthvert ádeiluefni hvort betur sé unnið að löggjöf en áður og einnig að því skuli haldið fram að með þessu lagaráði eigi að draga úr áhrifum framkvæmdarvaldsins í lagasetningu. Framkvæmdarvaldið hefur stjórnarskrárbundinn rétt til að leggja frumvörp fyrir Alþingi, í ríkisstjórninni eru þingmenn. Þeir hafa rétt til þess sem þingmenn að leggja frv. fyrir Alþingi og þeir geta einnig lagt fram stjórnarfrumvörp. Það er síðan Alþingis að fjalla um þessi frv. eftir að þau hafa verið lögð fram.

Það frv. sem hér er til umræðu kemur hvergi nokkurs staðar nærri þeim málum, hvergi nokkurs staðar.