Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 19:38:09 (4897)

2001-02-20 19:38:09# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[19:38]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hafði svo sem ekki ætlað að taka þátt í umræðunni sem hefur verið býsna fróðleg um margt. Ég vil byrja á því að fagna því frumkvæði, einu af mörgum, sem þingmenn sýna með því að flytja tillögur og frv. til laga um endurbætur og til styrkingar á starfsemi hins háa Alþingis.

Það sem veldur mér mikilli undrun er þessi stríði og undarlegi tónn sem er að finna í þessum sal og hefur verið svífandi yfir vötnum í allan dag. Það eru nokkrir fulltrúar hv. stjórnarliða sem hafa farið á undan í þeim efnum. Satt að segja hef ég ekki alveg skilið hvað þeim hefur gengið hér til. Ég hélt í einfeldni minni að allir hv. þingmenn mundu fagna frumkvæði af þessum toga og reyna að ræða málið og reifa, velta því upp hvort þetta væri hin rétta leið eða hvort aðrar leiðir væru kannski skynsamlegri. En því er ekki að heilsa heldur virðist mér eins og tilgangur fjölmargra hv. stjórnarliða í þessari umræðu sé að reyna að koma einhverju höggi á mann eða annan og reyna að tæta þennan tillögutexta niður í smábúta og snúa út úr honum á alla kanta og hliðar.

Ef það væri þannig, herra forseti, að allt væri með felldu á hinu háa Alþingi og engin þörf væri á umræðu af þessum toga eða yfirleitt á því að gaumgæfa og skoða þingsköpin, regluverkið eða venjur og hefðir á hinu háa Alþingi þá skildi ég að menn væru hér stífir, stirðir og þverir og tækju það óstinnt upp þegar menn leyfðu sér að koma með ábendingar um það sem betur mætti fara. En auðvitað er það ekki þannig. Ég hef hlýtt á þessa umræðu í allan dag og m.a. viðbrögð í þá veruna að engin ástæða sé til þess, bara yfirleitt ekki að skoða það til að mynda að fara yfir þingsköp frá a til ö.

Ég vil rifja það upp að í lok síðasta kjörtímabils var lagt fram frv., ef ég man rétt, af hálfu formanna allra þingflokka eða hvort það voru fulltrúar allra flokka í forsn. Alþingis sem fóru fram með það frv. Það náði ekki landi, ekki gafst tími til þess að ljúka því máli og afgreiða það fyrir síðustu kosningar. En það var sýnt hér og það var allgóð sátt um þær um margt róttæku endurbætur sem þar var að finna. Ég hef verið ákafur talsmaður þess að menn endurveki þá umræðu. Það er margt í þessum sal, í þessu húsi, í þessari stofnun sem má betur fara.

Ég hef t.d. lengi gagnrýnt það að mér finnst að nefndir þingsins dragi of mikinn dám af skipan ráðuneyta. Það er ekkert sem segir okkur endilega að verklag hér og skipan nefnda þingsins þurfi endilega að endurspegla skiptingu ráðuneyta í ríkisstjórn hverju sinni, það er langur vegur frá. Það frv. frá því fyrir tveimur árum eða þar um bil, braut þetta upp. Það er líka löngu kominn tími til þess að nefndir þingsins fái sjálfstæðara og stóraukið vald til þess að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, og skapi þá venju að fara yfir mál, stundum í heyranda hljóði, eins og við þekkjum úr mörgum þjóðþingum annars staðar frá. Það er eins og það séu einhver óskrifuð lög eða reglur að það megi ekki hnika neinu í þessa veruna.

Það eru auðvitað atriði af þessum toga, herra forseti, sem gera það að verkum að við eigum að ræða mál af þeim toga sem hér er á ferðinni með málefnalegum og opnum hætti en ekki fara í gamalkunnar skotgrafir og í einhver fýluköst eins og hér hefur í allt of ríkum mæli borið á.

Herra forseti. Ég hef tekið eftir því að það stendur t.d. í nokkrum hv. þingmönnum að skilja þennan einfalda texta í 1. gr., hvað það þýðir að ráðgefandi lagaráð hafi það hlutverk að setja samræmdar reglur um samningu lagafrumvarpa og annan undirbúning löggjafarmála. Ætli það sé ekki svipað því og nefndadeildin gerir í dag þegar hún er að aðstoða þingmenn um uppsetningu og form lagafrumvarpa sem þingmenn og hópar þeirra eru að semja hér? Ætli það sé ekki m.a. það sem nefnt hefur verið í umræðunni um það hversu langt og yfirleitt hvort í sumum tilfellum eigi að heimila reglugerðarvald til handa ráðherrum?

Hér var gagnrýnt árum og áratugum saman, og mér þykir ákaflega lítið mjakast í þá veruna og hér koma enn þá inn frv. af þeim toga þar sem, eins og kom fram hjá hv. 1. flm., það liggur við að öll veigaþyngstu ákvæði tiltekinna frv. séu með þessum hætti: Ráðherra er heimilt að setja reglur um framkvæmd.

Það er af þessum toga sem við erum auðvitað að kalla eftir ákveðnum ráðleggingum um það hvernig löggjöf geti verið gagnsæ, skiljanleg og skýr. Ef það er erfitt að skilja 1. gr. í þessu ljósi þá er það kannski vegna þess að menn vilja ekki hafa löggjöf af þeim toga eða maður getur gefið sér það.

Herra forseti. Nei, þetta hefur ekkert verið mjög uppbyggilegt. Ég vil taka undir það að margt hefur færst hér til betri vegar. En við skulum horfa á hlutina eins og þeir eru í okkar ágætu nefndadeild þar sem eru nú starfandi sjö lögfræðingar. Hvernig hefur okkur til að mynda tekist að halda á þessum starfsmönnum okkar? Hvernig hefur það gengið? Það hefur gengið afskaplega illa. Ég held ég fari rétt með að elsti starfsmaðurinn í nefndadeild hefur sjö ára starfsreynslu. Meira en helmingur þeirra byrjaði á þessu ári eða hinu síðasta. Þetta hefur með öðrum orðum verið ungt fólk, prýðilegt langflest og mjög áhugasamt og gott um margt, en auðvitað því miður velflest ekki með langa reynslu af löggjafarstörfum og ekki með langa reynslu af lögfræðistörfum yfirleitt heldur nýkomið af skólabekk.

[19:45]

Kannski er það kostur en að vissu leyti er það líka galli. Við skulum horfast í augu við það. Þróunin hefur gjarnan verið sú að það góða fólk sem við höfum fengið til okkar í gegnum árin --- hvert hefur það farið? Í langflestum tilvikum til framkvæmdarvaldsins einhverra hluta vegna. Það eru ráðherrarnir sem hafa kallað það til frekari verka og ég spyr: Segir það ekki dálítið um stöðu þessarar stofnunar og þurfum við ekki einmitt að hafa áhyggjur af þáttum af þessum toga? Jú, ég vil segja það. Ég vil ekki trúa því að þarna sé um einföld kjaramál að ræða. Þarna er einhver djúpstæðari vandi sem við þurfum að horfast í augu við en ekki ýta frá okkur.

Ég undirstrika aftur að margt hefur færst hér til betri vegar en við megum ekki afgreiða jákvæðar ábendingar um endurbætur á starfsemi löggjafarsamkundunnar með því að snúa þær niður í pirringi, stífni og þvermóðsku. Og auðvitað er það þannig, herra forseti, ef við tölum um það eins og það kemur fyrir, að framkvæmdarvaldið er hér meira og minna allsráðandi enda byggir það auðvitað á þingstyrk meiri hluta þingmanna. En það er ekki þar með sagt að 95% löggjafar þurfi endilega að eiga sér rót og frumkvæði í ráðuneytum framkvæmdarvaldsins. Hvernig stendur á því að það telst til tíðinda ef almenn þingmannafrumvörp fá afgreiðslu á hinu háa Alþingi? Hversu oft var það á síðasta þingi, heila þingi, að þingmannafrumvörp þingmanna stjórnarandstöðunnar komu aftur úr nefnd? Ég spyr. Ég efast um að hægt sé að telja það á fingrum annarrar handar. Ég stórefa það. Hef ég þó ekki gert nýlega rannsókn á því.

Það er enginn að halda því fram að hið háa Alþingi þurfi endilega að samþykkja þetta frv. Nei, við viljum bara að fá það hér til afgreiðslu. Það hefur nú verið þrautin þyngri. Og jafnvel þó um sé að ræða þingmannafrumvörp sem koma frá þingmönnum stjórnarliðsins eða frv. sem þverpólitísk samstaða er um þá daga nú oftar en ekki þau hin sömu mál uppi í nefndum þingsins.

Ég spyr: Segir þetta okkur ekki dálítið um það hvernig regluverkið, hefðirnar og venjurnar eru? Við skulum tala tæpitungulaust um þessa hluti eins og þeir eru. Það er auðvitað ákveðin, sumpart eðlileg, togstreita milli þings og framkvæmdarvalds og á að vera það. Þess vegna verð ég að segja að ég hafði skilning á því þegar hæstv. ráðherrar komu áðan og héldu því mjög ákveðið fram að svona ráðgjafarbatterí, lagaráð, lagaskrifstofa eða hvað menn vilja kalla það, ætti að eiga heima þar sem 95% laga verða til, ætti þá með öðrum orðum að eiga heima í forsrn. eða dómsmrn. Það er eðli þessarar togstreitu. Það kom mér hins vegar á óvart að aðrir hv. þm. tækju undir þetta jafnafdráttarlaust og þeir gerðu því að hvar svo sem fæðingin verður, þ.e. hvar svo sem þetta verður til, þá ber auðvitað hið háa Alþingi hina endanlegu ábyrgð og afgreiðir málið sem lög frá hinu háa Alþingi og vísar til framkvæmdar hjá framkvæmdarvaldinu. Sú ábyrgð verður aldrei tekin af hinu háa Alþingi og því er eðli máls samkvæmt borðliggjandi að mínu áliti að slíkt ráðgefandi lagaráð eða hvað það nú heitir eigi hér heima og hvergi annars staðar.

Mér kemur það svo sem ekkert við að öðru leyti hvort framkvæmdarvaldið, einstök ráðuneyti eða þau sameiginlega setji á einhvers konar síu sem fari yfir þau lagafrumvörp sem þar eru smíðuð.

Herra forseti. Af því að ég er að velta þessu fyrir mér og stikla á stóru, hoppandi frá einu atriðinu til annars, þá verðum við allir hv. þm. auðvitað varir við þá tilhneigingu framkvæmdarvaldsins að vilja helst fylgja málunum bara alveg inn í nefndirnar og helst út til umsagnaraðila og fá að vita hverja einustu lítilvæga eða stóra breytingu sem á texta verður. Í sumum nefndum var það gjarnan lenska að höfundar tiltekinna frv. vildu sitja alla nefndarfundi til þess að gæta þess að ekki yrðu gerðar neinar breytingar á þeirra eigin hugverki. Þetta hefur sem betur fer breyst með auknu sjálfstæði nefndanna. En svona var þetta (Gripið fram í: Og tíðkast ...) og tíðkast kannski einhvers staðar. Ég kann nú ekki á allar nefndir í þeim efnum. En þetta eru ekki vinnubrögð sem við erum að kalla hér yfir okkur. Þegar mál eru komin frá ríkisstjórninni inn á hið háa Alþingi þá eru þau til umfjöllunar hér hjá hinu háa Alþingi en ekki annars staðar. Það er kjarni málsins.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að halda ræðu og þetta var ekki ræða. Þetta voru hins vegar lausar og fastar hugrenningar sem kviknuðu hér ekki síst við þau stríðu viðbrögð sem mér komu svo á óvart í umræðum hér í dag. Það gefur augaleið að þetta litla frv. er ekki allra meina bót. En þarna eru þó flutningsmenn, hv. þm., að leggja sitt litla lóð á vogarskálina í þá veruna að við vöndum vinnubrögðin og gerum þau enn þá betri. Ég átti satt að segja von á því, herra forseti, að menn tækju slíku frumkvæði alveg sérstaklega fagnandi. Við hinir bjartsýnu menn gerum það a.m.k.