Notkun úranhúðaðra sprengiodda í loftárásum NATO á Júgóslavíu

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 13:47:59 (4902)

2001-02-21 13:47:59# 126. lþ. 75.4 fundur 386. mál: #A notkun úranhúðaðra sprengiodda í loftárásum NATO á Júgóslavíu# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég tek það gilt sem svar af hálfu ríkisstjórnarinnar að ríkisstjórn Íslands eða íslenskum stjórnvöldum hafi ekki verið ljóst að vopn af þessu tagi yrðu notuð í loftárásunum á Júgóslavíu og satt best að segja líður mér aðeins betur því að nóg er að skrifa upp á þessar aðgerðir þó að hitt bættist ekki við ef í ljós hefði komið að íslensk stjórnvöld hefðu þá þegar vitað að svona vopnum yrði beitt.

Það liggur að vísu fyrir að Bandaríkjamenn vöruðu aðildarríki Atlantshafsbandalagsins við því ekki löngu síðar að notkun svona vopna gæti haft hættu í för með sér.

Það er líka rétt að menn átti sig á því að sá leyndarhjúpur sem þessir hlutir eru umluktir hefur rækilega sannast í þessu tilviki, þ.e. í fyrra tilvikinu að Bandaríkjamenn leyndu því að í úranhúðuðum vopnum þeirra var notað óhreint úran, þ.e. kjarnorkuúrgangur með hágeislavirkum efnum, og í seinna tilvikinu liggur fyrir að bresk hermálayfirvöld lágu á skýrslu sem leiddi rök að skaðsemi notkunar þessara vopna og heilsutjóni sem því gæti verið samfara í fjögur ár. Í fjögur ár leyndi breski herinn því að hann hafi undir höndum skýrslur sem sýndu fram á þetta með býsna sterkum hætti. Samt var haldið áfram að nota þessi vopn eða taka þátt í aðgerðum þar sem þau voru notuð.

Herra forseti. Ég held að það sé eins gott fyrir Íslendinga að átta sig á því hvað uppáskrift að aðgerðum af þessu tagi getur haft í för með sér, þ.e. að menn sitja í súpunni og lenda í því að hafa borið ábyrgð á aðgerðum af þessu tagi sem eru auðvitað óverjanlegar og forkastanlegar.

Mér þykir líka miður, herra forseti, að ekki einu sinni skuli utanrrh. Íslands eða ríkisstjórnin geta haft t.d. einarða afstöðu í því að vilja berjast fyrir því að svona vopn verði bönnuð. Það var ekki einu sinni hægt í svari við þriðju spurningu minni að koma með afdráttarlausa afstöðu í þeim efnum heldur var fimbulfambað svona fram og til baka um að auðvitað væri gott að reyna að nota vopn sem hefðu sem minnst tjón í för með sér.