Orkukostnaður

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 13:55:39 (4905)

2001-02-21 13:55:39# 126. lþ. 75.5 fundur 202. mál: #A orkukostnaður# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur borið upp við mig fimm spurningar.

Svar við fyrstu spurningu: Gögn og upplýsingar sem aflað var hjá raforkufyrirtækjum við undirbúning svars við fyrirspurn hv. þm. leiða í ljós að erfitt er að gefa skýrt og afdráttarlaust svar við því hversu mörg lögbýli eiga þess ekki kost að kaupa orku frá veitukerfum orkufyrirtækjanna. Í raun má segja að nánast allir eigi kost á að tengjast orkuveitu en vegna kostnaðar er það í mörgum tilfellum ekki raunhæfur kostur.

Nú er það þannig að nýr notandi þarf að standa undir þeim kostnaði sem af tengingunni hlýst sem þýðir að kostnaður notandans eykst í hlutfalli við fjarlægð frá veitukerfinu. Af þessum sökum er í fæstum tilfellum raunhæft að tengja einstök býli sem eru í meira en 2--3 km fjarlægð frá veitukerfinu.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum frá orkufyrirtækjunum má ætla að um 115 býli séu ekki tengd veitukerfum orkufyrirtækjanna, en þar af hafa um 70 heimarafstöðvar. Fjöldi þeirra býla er hvorki hafa heimarafstöð né tengjast samveitu orkufyrirtækjanna er samkvæmt þessu um 45. Við lauslega athugun á þessum býlum er áætlað að um 20 þeirra séu í ábúð en 25 í eyði. Í þessu sambandi er þó rétt að hafa í huga að hluti eyðibýla er nýttur sem sumardvalarbústaðir.

Skipting þessara býla eftir landshlutum er þannig að á Vesturlandi eru tvö býli, Vestfjörðum þrjú til sex, Norðurlandi vestra þrjú, Norðurlandi eystra sex, Austurlandi tvö og Suðurlandi tvö.

Svar við annarri spurningu: Ekki liggja fyrir upplýsingar um heildarorkuþörf þessara býla og erfitt er að áætla hana þar eð mörg þeirra eru ekki í ábúð eða dvöl á staðnum takmörkuð. Ef hins vegar er miðað við upplýsingar úr gögnum orkuspárnefndar um meðalársnotkun á býlum með hefðbundinn búrekstur og íbúðarhúsið er hitað með raforku má gera ráð fyrir að meðalársnotkun sé um 32 þús. kwst. á hverju býli en hlutir eins og súgþurrkun, mjólkurkæling og fleira er þar ekki meðtalið. Af þessari notkun má ætla að um 6.000 kwst. séu notaðar til annars en hitunar. Heildarnotkun 45 lögbýla gæti því numið 1.440 mwst. á ári en þar af eru um 1.170 mwst. til hitunar og 270 mwst. til annarra nota. Eins og áður sagði eru mörg þessara býla í eyði þannig að raunveruleg orkunotkun er trúlega lægri en þessir útreikningar sýna.

Svar við þriðju spurningu: Á þeim býlum sem ekki eru tengd veitukerfum orkufyrirtækjanna er húshitun ýmist með olíu eða raforku frá heimarafstöð. Ekki liggja fyrir upplýsingar um kostnað við hitun þar sem eru heimarafstöðvar en ætla má að hann sé lítill. Hvað varðar býli sem nota olíu til húshitunar má gera ráð fyrir að 5.085 lítra af olíu þurfi til að hita hús sem annars þyrfti 32.800 kwst. við beina rafhitun.

Við núverandi verðlag á olíu sem ég tel vera 43 kr. á lítra samsvarar þetta einingarverði til upphitunar sem nemur 6,76 kr. á kwst. eða 226 þús. kr. á ári. Hjá Rafmagnsveitum ríkisins er meðalverð á raforku til beinnar rafhitunar þar sem ársnotkun er 32.800 kwst., 2,39 kr. á kwst. og árlegur hitunarkostnaður eiganda því tæplega 80 þús. kr. þegar tekið hefur verið tillit til niðurgreiðslna ríkisins og afsláttar raforkufyrirtækjanna. Því er ljóst að húshitunarkostnaður þessara býla mundi lækka verulega ef þau gætu keypt orku frá veitukerfum orkufyrirtækjanna.

Svar við fjórðu spurningu: Orkustyrkir til húshitunar voru lagðir niður fyrir tæpum 20 árum í kjölfar verulegrar olíuverðslækkunar sem þá varð. Tilgangur þess var m.a. að stuðla að frekari nýtingu innlendra endurnýjanlegra orkugjafa eins og hitaveitna og rafmagns. Í fjárlögum undir liðnum Notendur utan samveitna eru Orkusjóði ætlaðar 2 millj. kr. sem fara í að greiða Rafmagnsveitum ríkisins vegna raforkuframleiðslu á Hólsfjöllum. Þetta byggir á sérstakri ákvörðun ríkisstjórnarinnar og var tilgangur þessa á sínum tíma að stuðla að fastri búsetu á Hólsfjöllum allt árið. Þar er nú um að ræða sjö býli sem fá raforku frá dísilstöð sem rekin er af Rafmagnsveitum ríkisins.

Svar við fimmtu spurningu: Á undanförnum árum hafa niðurgreiðslur vegna rafhitunar aukist verulega auk þess sem olíuverð hefur hækkað.

Ég vil segja í lokin að í ljósi þessara staðreynda hef ég ákveðið að fela nefnd á vegum ráðuneytisins að kanna stöðu þessara mála og gera tillögur um aðgerðir vegna lögbýla sem ekki eru tengd veitukerfum orkufyrirtækjanna.