Börn og auglýsingar

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 14:25:10 (4915)

2001-02-21 14:25:10# 126. lþ. 75.7 fundur 459. mál: #A börn og auglýsingar# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á stöðu barna og ungmenna gagnvart auglýsingum. Mér er afar annt um að þessi ákvæði 22. gr. samkeppnislaga séu virk og að þau séu virt, sem baráttumaður fyrir því á sinni tíð að ákvæði um þetta efni yrðu tekin upp í lög, þ.e. ákvæði sem verndi börn og ungmenni fyrir innrætandi auglýsingum. Sú barátta skilaði að vísu ekki sérlöggjöf eins og þó var á dagskrá hér í eina tíð að sett yrði. Í stað þess komu þessi efnisákvæði inn í 22. gr. og það er enginn vafi á því að það er mikill styrkur í þeim, þ.e. ef þeim er framfylgt. Ég held hins vegar að ástæða sé til að hafa áhyggjur af því kæruleysi sem nú ber á í sambandi við þetta mál og það er ugglaust rétt að liður í því að taka á því gæti verið að setja reglugerð eða ákvæði til nánari framkvæmdar á 22. gr. Ef ekki sýnist mér óhjákvæmilegt að fara yfir það hvort nauðsynlegt sé að styrkja þessi lagaákvæði beint.