Viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:06:35 (4927)

2001-02-26 15:06:35# 126. lþ. 76.1 fundur 321#B viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Nýlega var útboð á vegum Ríkiskaupa á viðgerðum á varðskipunum Ægi og Tý. Margt hefur verið rætt um þetta útboð og framkvæmd þess hin síðari missiri og sitt sýnist hverjum. Síðan hefur það gerst að ákveðið hefur verið að senda skipin til Póllands. Ríkiskaup rökstuddu þá ákvörðun með því að það kostaði 6,8 millj. minna að gera við bæði skipin í Póllandi en á Íslandi að teknu tilliti til kostnaðar við siglingu skipanna, eftirlit o.fl.

Nú hefur hins vegar komið fram ný skýrsla frá VSÓ Ráðgjöf á Akureyri yfir þann sérstaka kostnað sem reikna þarf með ef skipin verða send til Póllands. Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins kemur m.a. fram að sérstakur kostnaður vegna siglingar, eftirlits og fleira er tæplega 7,5 millj. fyrir hvort skip en ekki 3,9 millj. eins og Ríkiskaup höfðu áætlað. Þar kemur fram að það er rúmlega 900 þús. kr. ódýrara að gera við varðskipið Ægi á Íslandi en í Póllandi. Í þriðja lagi er viðgerð á báðum skipunum á Íslandi rúmlega 300 þús. kr. ódýrari en viðgerð í Póllandi.

Þessu til viðbótar er rétt að benda á að taka þarf tillit til þess fjárhagslega ávinnings í formi ýmissa skatttekna sem opinberir aðilar hafa af viðgerð skipanna hér heima. Þess vegna vil ég, herra forseti, leggja fram eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. iðnrh.:

1. Er hæstv. iðnrh. sammála þeirri niðurstöðu sem orðið hefur í þessu máli, þ.e. að varðskipin tvö verði send úr landi til viðgerðar en ekki unnin hjá íslenskum iðnaðarmönnum á Íslandi?

2. Hyggst hæstv. iðnrh. beita sér fyrir frekari athugun á þeim útreikningum sem hér eru mjög misvísandi, þ.e. milli Ríkiskaupa annars vegar og VSÓ Ráðgjafar á Akureyri hins vegar?