Viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:13:33 (4931)

2001-02-26 15:13:33# 126. lþ. 76.1 fundur 321#B viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:13]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Enn þá kemur ráðherrann upp með það og ætlar að reyna að telja þingheimi trú um að þeir þrír ráðherrar sem komu að þessu máli hafi ekkert getað gert í málinu og þessar 6,8 millj. séu það sem öllu ráða.

Málið er einfaldlega það að Ríkiskaup er ekki óvilhallur aðili í þessum efnum. Meiri bragur hefði verið að því ef hæstv. ríkisstjórn hefði aflað sér álits frá öðrum ráðgjafarfyrirtækjum til að láta skoða þessi mál og bera þá saman við þær tölur sem koma frá Ríkiskaupum sem ég ítreka og segi að eru ekki óvilhallir í þessu mati.

Til dæmis er eitt sem við Íslendingar hefðum getað gert og það hefur verið gagnrýnt, m.a. af nokkrum þingmönnum Framsfl., að þessi útboðsgögn sem hér er verið að ræða um voru öll þýdd yfir á ensku, væntanlega til þess að auðvelda erlendum aðilum að bjóða í verkið en voru ekki á íslensku eins og okkur er heimilt að gera. Ég vísa þessu því til föðurhúsanna og finnst dálítið gaman að hlusta á hæstv. ráðherra byggðamála snúa sér út úr allri umræðu hvað þetta varðar með því að ræða um okkur alþýðuflokksmenn frá gamalli tíð.