Boðað verkfall sjómanna

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:15:52 (4933)

2001-02-26 15:15:52# 126. lþ. 76.1 fundur 322#B boðað verkfall sjómanna# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eins og kunnugt er hafa sjómenn verið með lausa kjarasamninga svo mánuðum skiptir og þó svo að einhverjar viðræður eigi að heita í gangi hefur margítrekað komið fram opinberlega á undanförnum dögum og vikum að ákaflega þunglega horfir með lausn deilunnar. Fari svo að ekki verði þar umtalsverð breyting á skellur á verkfall klukkan 23.00 þann 15. mars nk.

Nú er það svo að stjórnvöld hafa átt beina og umtalsverða aðild að kjaradeilum sjómanna og útvegsmanna undanfarin nokkur skipti og þær hafa tengst lagasetningu og íhlutun stjórnvalda --- þ.e. lausn ef lausnir skyldi kalla í þeim efnum --- nú um árabil og kemur þetta m.a. til af því að kjaramál sjómanna eru nátengd því verðmyndunarkerfi sem stuðst er við í sjávarútveginum í viðskiptum milli aðila, sömuleiðis tengd þeim lagaákvæðum eða reglum sem gilda um viðskipti með veiðiheimildir og fleira mætti nefna.

Þess vegna vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvrh., með hliðsjón af þessari forsögu málsins og þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er ef allsherjarverkfall blasir við m.a. og ekki síst vegna þess að nú er fyrirséð að þá mun ekki takast að ljúka loðnuvertíðinni og þeim veiðiheimildum sem þegar hafa verið gefnar út og umtalsverð verðmæti fara þar af leiðandi í súginn ef til verkfalls kemur.

Ég vil því spyrja hæstv. sjútvrh.:

Hefur hæstv. ráðherra beitt sér gagnvart aðilum deilunnar?

Hefur ráðherra átt viðræður við málsaðila?

Hvernig metur hæstv. ráðherra stöðuna og telur hann að til þess muni þurfa að koma að stjórnvöld eigi aðild að lausn deilunnar í formi lagabreytinga eða annarra slíkra aðgerða og hvar er þá undirbúningur á vegi staddur í þeim efnum?