Boðað verkfall sjómanna

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:20:34 (4935)

2001-02-26 15:20:34# 126. lþ. 76.1 fundur 322#B boðað verkfall sjómanna# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og segi það fyrir mitt leyti að mér líka þau að því leyti betur en svör menntmrh. þegar rætt var hér um verkfall kennara, að hæstv. sjútvrh. viðurkennir þó að hann sé sjútvrh. og honum komi málið við og það er vel, og hann hafi rætt við deiluaðila.

Vissulega er rétt að það er mjög dapurlegt ef það tekst ekki yfir höfuð þó reynt sé trekk í trekk að leysa samskiptamál útvegsmanna og sjómanna með eðlilegum kjarasamningum á sjálfstæðum og óháðum grundvelli og er það vissulega mikið áhyggjuefni hvernig þeir hlutir hafa þróast.

Einnig er áhyggjuefni, herra forseti, að það virðist vera lenska og verklag í viðræðum deiluaðila í kjaradeilum að hefja ekki alvörusamningaviðræður fyrr en verkfallið er skollið á eða a.m.k. alveg að gera það. Má þar til taka bæði deilu framhaldsskólakennara fyrir skemmstu og sömuleiðis deilu flugumferðarstjóra. Ekki virðast því hin nýju lög um stéttarfélög og vinnudeilur og hinar fínu viðræðuáætlanir mæla sérstaklega með sér sjálf, skoðuð í þessu ljósi reynslunnar. En ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svör hans.