Viðbúnaður gegn gin- og klaufaveikifaraldri í Englandi

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:35:35 (4946)

2001-02-26 15:35:35# 126. lþ. 76.1 fundur 325#B viðbúnaður gegn gin- og klaufaveikisfaraldri í Englandi# (óundirbúin fsp.), KPál
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég beini spurningu minni til hæstv. landbrh. og vil forvitnast hjá hæstv. ráðherra um hvort einhverjar aðgerðir séu í gangi vegna mikils faraldurs sem nú virðist geysa í Evrópu, þ.e. gin- og klaufaveiki. Þetta er einn af allra erfiðustu sjúkdómum sem riðið geta yfir landbúnaðarhéruð og þjóðir. Hann veldur gríðarlegum efnahagslegum áhrifum sem erfitt er að ráða við. Smithætta af þessum sjúkdómi er feiknarleg og fróðir menn hafa sagt mér að smit geti borist yfir haf, hafi m.a. borist frá meginlandinu, yfir Ermarsundið og til Englands. Fyrir utan það að berast með fólki og fénaði á milli landa er talið að þessi smitvaldur sé miklu alvarlegri en t.d. mæðuveiki og margt annað sem hrjáð hefur íslenskan landbúnað.

Herra forseti. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvernig ráðuneytið og hæstv. ráðherra hyggist bregðast við þessum vágesti sem hér er á næsta leiti, hvort einhverjar ráðstafanir varðandi innflutning séu í skoðun. Ég lít svo á að sú athugun megi ekki taka langan tíma. Eins þarf að athuga með eftirlit með ferðamönnum sem eiga leið um landið, frá hvaða löndum þeir eru, hvort einhver athugun sé gerð á ferðamönnum sem koma t.d. frá Bretlandi, þar sem þessi vágestur virðist dreifast um landið án þess að nokkuð verði við ráðið.

Ég veit, herra forseti, að þessi mál eru til skoðunar í landbrn. og að þar hafa menn áhyggjur. Ég vil fyrst og fremst beina því til ráðherrans að hratt verði brugðist við í þessu máli. Þetta er í raun miklu alvarlegri sjúkdómur en svokallaður Creutzfeldt-Jakobs sjúkdómur og kúariðutilfellin sem hafa verið til umræðu í langan tíma. Málið er því mjög alvarlegt.